Innlent

Hefur trú á að flokkurinn geti styrkst í þétt­býli

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ásmundur Einar segist vilja leggja meiri áherslu á húsnæðismál og málefni barna.
Ásmundur Einar segist vilja leggja meiri áherslu á húsnæðismál og málefni barna. Vísir/Einar

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra tilkynnti það í liðinni viku að hann hyggist gefa sig fram til komandi Alþingiskosninga í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Það þykir nokkuð stórt skref en Ásmundur hefur hingað til boðið sig fram á í Norðvesturkjördæmi og Framsóknarflokkurinn fékk engan þingmann inn í Reykjavíkurkjördæmum í síðustu kosningum.

Hann sagði í Víglínunni á Söð 2 ástæðuna fyrir breytingunni tvíþætta. Annars vegar hafi verið vilji til að flytja til Reykjavíkur.

„Konan mín er úr Reykjavík og fjölskyldur okkar hérna og móðir mín býr hérna og ég myndi vilja vera nær henni og svo framvegis,“ segir Ásmundur.

Stóra ástæðan snúi þó að verkefnum á borð við húsnæðismál og málefni barna.

„Ég finn það innra með mér að mig langar til þess að elta þessi mál. Leggja miklu meiri áherslu á þau og í rauninni sjá sambærilegar róttækar aðgerðir verða á fleiri sviðum. Ég sé það líka að það mun ekki verða nema að flokkurinn, Framsóknarflokkurinn, nái að styrkja sig í þéttbýli.“

„Því tek ég þessa áhættu sem kann að virðast fífldjörf að fara úr nær öruggu þingsæti í framboð í Reykjavík þar sem flokkurinn hefur ekki átt þingmann í síðustu tveimur Alþingiskosningum,“ segir Ásmundur.

Hann segist hafa þá trú að Framsóknarflokkurinn eigi möguleika á að styrkja sig í þéttbýli.

„Við þurfum að sjá áframhaldandi róttækar aðgerðir á næsta kjörtímabili og ég hef trú á því að við getum náð þessu ætlunarverki,“ segir Ásmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×