Áskorun

„Fólk situr uppi með bankalánin þótt það missi húsin sín“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það er ekki hægt annað en að dást að flóttakonunni Yuliu Zhatkina frá Úkraínu. Sem fyrst flúði Rússa árið 2014 og síðan aftur 2022 þegar Rússar gerðu innrás í Úkraínu. Í dag er Yulia ástfangin upp fyrir haus og nýbúin að stofna fyrirtæki á Íslandi.
Það er ekki hægt annað en að dást að flóttakonunni Yuliu Zhatkina frá Úkraínu. Sem fyrst flúði Rússa árið 2014 og síðan aftur 2022 þegar Rússar gerðu innrás í Úkraínu. Í dag er Yulia ástfangin upp fyrir haus og nýbúin að stofna fyrirtæki á Íslandi. Vísir/RAX

„Ég er fædd og uppalin í þessari borg og áður en Rússarnir komu, hafði ég ekki í eitt augnablik velt því fyrir mér að flytja þaðan. Enda var ég gift, hamingjusöm, átti fjögurra ára strák, er vel menntuð og var í mjög góðu starfi hjá stóru fyrirtæki,“ segir Yulia Zhatkina flóttakona frá Úkraínu.

Sem ekki aðeins þurfti að flýja heimilið sitt árið 2022 í kjölfar innrásar Rússa, heldur einnig árið 2014, þegar Rússar hertóku Krímskaga og hluta af austur Úkraínu.

„Fram að þeim tíma elskaði ég að búa í Donetsk, enda borgin í mikilli uppbyggingu. Þarna var verið að reisa mörg ný hótel, nýir og flottir veitingastaðir og mjög flottur íþróttavöllur. Í Donetsk höfðum við því staðið fyrir þó nokkuð af stórum evrópskum íþróttaviðburðum,“ segir Yulia og bætir við:

Við hjónin áttum íbúð í Donetsk og höfðum í apríl þetta ár greitt okkar síðasta greiðsluseðil. 

Í Úkraínu er það nefnilega þannig að fólk situr uppi með bankalánin þótt það missi húsin sín í stríðinu. 

Lánin eru fryst í ákveðinn tíma eins og verið er að gera hér vegna Grindavíkur. 

En þú losnar ekki við lánin og þarft því að halda áfram að greiða þau.“

Yulia er nýbúin að stofna fyrirtæki á Íslandi, er ástfangin upp fyrir haus og ætlar sér stóra hluti. 

Hún hefur samt gengið í gegnum miklar hremmingar og í dag lýsir hún því fyrir okkur, hvernig upplifun það er að þurfa að flýja heimilið sitt í stríði og setjast að í allt öðru landi, með allt aðra menningu, ólíkt tungumál og daglegan fréttaflutning um ástandið heima fyrir.

„Ég fæ alltaf í magann þegar ég sé byggingar í fréttum sem eru kannski illa farnar og maður veit að einhverjir vinir eða vandamenn bjuggu í. Það er ekki auðvelt að fylgjast með þessu.“

Áskorun fjallar á mannlegan hátt um málin þar sem við tökumst á við okkur sjálf, mál innan fjölskyldunnar, önnur samskipta- og/eða tilfinningatengd mál, veikindi, fíkn, bata, sorg, dauða, aldurstengd mál og fleira.

Í dag heyrum við sögu konu sem flúði stríðið í Úkraínu og settist að á Íslandi.

Yulia segir það hafa verið óraunverulega upplifun að vakna upp við stríð í Kíev. Þar bjó hún í fallegri íbúð með börnunum sínum tveimur og kettinum þeirra og í sama húsi leigði hún íbúð fyrir móður sína. Í árabil starfaði Yulia í pr- og markaðsmálum fyrir stórfyrirtæki en þegar stríðið braust út átti hún og rak pr- og viðburðarfyrirtæki sem gekk mjög vel.

Flugvéladrunur og flótti

Það var hálf undarlegt fyrir okkur flest að vakna upp við fréttir um innrás Rússa til Úkraínu þann 24.mars árið 2022. Enda enginn okkar að búast við því að stríð sem þetta gæti brotist út: Þar sem nágranni hreinlega ræðst inn í næsta land.

Þennan morgun svaf Yulia hins vegar sem fastast í fallegri íbúð sinni í Kíev og hafði ekki áhyggjur af neinu. 

Hún var fráskilin þegar þetta var, en búin að koma sér vel fyrir í íbúð sem hún keypti og gerði mikið upp og þarna bjó hún með syni sínum og dóttur.

Í sama húsi bjó móðir hennar, sem Yulia sá fyrir með leigu, en faðir hennar lést árið 2019.

„Lífið var loksins að komast í sömu skorður. Ég gerði íbúðina mína mikið upp en fyrirtækið mitt gekk vel og ég var aftur farin að geta leyft mér ýmislegt. Til dæmis að ferðast á ný og fleira,“ segir Yulia um þennan tíma.

„Ég sef alltaf með símann á mute stillingu en vaknaði við það að kötturinn okkar var eitthvað órólegur sem ég skildi ekkert í. Þegar ég loks leit á símann sá ég að fyrrverandi eiginmaður minn var búinn að hringja margsinnis án þess að ég heyrði.“

Yulia hringdi í barnsföður sinn sem bað hana um að koma sér út úr íbúðinni með börnin hið snarasta. Rússar hefðu ráðist inn í landið.

Þetta var óraunverulegt. Ég hringdi í mömmu og sagði henni að við þyrftum að flýja. 

Næsta hálftímann pakkaði ég einhverju dóti niður án þess að það væri nokkuð vitrænt í því hverju ég var að pakka. 

Maður tók bara það sem var hendi næst og setti í tösku.“

Út í bíl fóru mæðgurnar, börnin hennar tvö: Tymofiy 12 ára og Alisa 7 ára og kötturinn.

„Bíllinn minn var með hálfan tank af bensíni, enda hafði maður ekkert verið að huga að því þegar ég fór að sofa kvöldinu áður. En næstu 23 klukkustundir fóru í að koma okkur út úr borginni og á öruggan stað,“ segir Yulia.

Það sama átti við um fjöldann allan af öðrum íbúum höfuðborgarinnar. Fólk var óttaslegið og allir sem gátu að reyna að koma sér í burtu.

„Yfir okkur flugu flugvélar og þetta var eiginlega allt eins og í bíómynd. Ég sat í bílnum með mömmu í farþegasætinu og börnin og köttinn aftur í. Við öll strætóskýli borgarinnar stóðu fjöldi manns sem ekki höfðu bíl til umráða en vildu komast í burtu.“

Yulia tók því upp í bílinn eina stúlku til að nýta allt pláss.

Um fjóra klukkustundir tók að komast út úr borginni og rétt um sólahring síðar var Yulia komin í öruggt skjól á fjallahóteli sem var í eigu vinar barnsföður hennar.

En Yulia var ekki að flýja í fyrsta sinn.

Yulia flúði Rússa fyrst árið 2014, þegar Rússar hertóku Krímskaga og hluta af austur Úkraínu. Fram að þeim tíma hafði henni aldrei dottið í hug að flytja frá heimaborg sinni Donetsk þar sem hún var mjög hamingjusöm og gekk vel. Yulia sannfærði foreldra sína um að flýja líka, en bæði voru þau fædd og uppalin í Donetsk.Vísir/RAX

Flúið frá æskuslóðunum

Yulia er fædd árið 1980 en hún er með meistaragráðu í málvísindum, PR og fjölmiðlafræði frá Donetsk National University og Master of Business Administration og í fyrra lauk hún sálfræðinámi frá Kyiv International Institute of Deep Psychology.

Yulia er fædd og uppalin í borginni Donetsk og það sama átti við um foreldra hennar.

„Pabbi starfaði lengi hjá vatnsveitunni í borginni og naut töluverðrar virðingar í sínu starfi. Mamma var hætt að vinna þegar Rússarnir komu en ekkert okkar hafði nokkurn tímann séð fyrir okkur að við myndum flytja frá borginni,“ segir Yulia.

„Áður en Rússarnir komu hafði verið nokkur umræða um að svo gæti farið að Rússar myndu yfirtaka borgina. Mér fannst það samt svo súrrealískt og fjarstæðukennd tilhugsun að ég hafði ekki áhyggjur af því að það gæti gerst.“

Þegar þó sú staða kom upp að borgin var allt í einu undir stjórn Rússa, töldu Yulia og eiginmaður hennar ekki annað koma til greina en einfaldlega að fara.

„Því við vildum ekki vera þarna. Lífið breyttist rosalega og það er ekki hægt að líkja því hvernig lífið var fyrir eða eftir komu Rússa. Þarna er engin uppbygging lengur og borgin varla svipur í sjón, mun færra fólk, lítið um störf og svo framvegis,“ segir Yulia og bætir við:

„Þannig að mér fannst ekki koma neitt annað til greina en að foreldrar mínir myndu flýja líka. En þau voru líka hrædd. Á endanum tókst mér að sannfæra þau um að koma með og sagði við þau að ég myndi sjá um að framfleyta þeim. Aðalmálið var að þau yrðu ekki þarna lengur.“

Næstu árin á eftir breyttist allt.

„Ég var reyndar mjög heppin því ég starfaði hjá stóru fyrirtæki sem hjálpaði okkur með íbúð annars staðar og þar bjuggum við öll saman. Árið 2015 eignuðumst við hjónin dóttur. Pabbi lést óvænt árið 2019 sem mér fannst mjög erfitt og finnst enn,“ segir Yulia og lýsir því hvernig hjartaaðgerð sem faðir hennar fór í tókst ekki.

Stórfyrirtækið sem Yulia starfaði fyrir er olíufyrirtæki og þar starfaði hún í markaðs- og pr málum. Árið 2019 stofnaði hún sitt eigið pr- og viðburðarfyrirtæki, en þá var hún flutt til Kíev og fráskilin.

„Ég byrjaði á því að leigja íbúð þar sem ég bjó með börnin og mamma bjó hjá okkur. Síðan náði ég að fjárfesta í minni eigin íbúð og fjárfesti mikið í henni því ég fór í miklar framkvæmdir,“ segir Yulia og bætir við:

„Í sama húsi leigði ég íbúð fyrir mömmu þannig að við bjuggum ekki lengur saman, en samt nálægt. Fyrirtækið mitt gekk mjög vel og áður en stríðið braust út, var ég loksins farin að geta leyft mér ýmsa hluti á ný. Ferðaðist til dæmis til Íslands hálfu ári áður en stríðið braust út,“ segir Yulia og brosir.

Að Íslandsdvölinni komum við að síðar en okkur er hugleikið að heyra hvernig fór með húsnæðismál Yuliu.

„Okkur hafði reyndar tekist á endanum að selja íbúðina okkar í Donetsk en fengum aðeins þriðjunginn fyrir hana miðað við verðið sem við höfðum keypt hana á. Ég er enn að borga íbúðina mína í Kíev en náði á endanum að setja hana í leigu. Sú leiga er þó svo lág að hún nær ekki næstum því upp í það sem ég þarf að borga af íbúðinni,“ svarar Yulia.

En hvað með allt dótið þitt þar?

„Ég fór í nokkur skipti aftur til Kíev eftir að stríðið braust út. En til að setja þær heimsóknir í samhengi við ástandið þá fór ég til dæmis í eitt skipti í fjóra daga. Af þeim fjórum dögum svaf ég í neðanjarðarbirgi í tvær nætur.“

Yulia segir að þótt þessi skipti hafi nýst fyrir það að sækja eitthvað af dóti til viðbótar, sé staðan samt sú að þegar þú þarft að flýja stríð, þá í raun ertu ekki með eitt eða neitt með þér að ráði.

„Það sem maður tekur líka með sér getur verið svo skrýtið. Ástæðan fyrir því að ég er til dæmis að spila badminton á Íslandi, með gamla badmintonspaðanum mínum, er einfaldlega sú að ég hafði verið á badmintonæfingu daginn áður en stríðið braust út og spaðinn minn var því enn í bílnum þegar við flúðum borgina. Og þennan spaða er ég með enn.“

Að flýja með börnin sín á framandi slóðir er erfitt g Yulia segir flóttafólk fara í gegnum mikinn og erfiðan tilfinningarússibana. Til dæmis hálfgerða lömunartilfinningu og reiði. Það sem dreif Yuliu áfram var að koma börnunum í öruggt skjól. 

Flúið til Íslands

En aftur yfir í stöðu Yuliu sem flóttamanns á Íslandi.

Hvernig kom það til?

„Ég á vinkonu sem var búsett á Íslandi þegar stríðið braust út, gift íslenskum manni. Hún hafði samband við mig og lagði til að ég myndi flytja hingað því hér myndu stjórnvöld hjálpa fólki við að koma undir sig fótunum á ný,“ segir Yulia.

„Fyrir ótrúlega tilviljun hafði ég heimsótt Ísland hálfu ári fyrr. Ég heillaðist strax af landinu sem er auðvitað ofboðslega fallegt. En auðvitað brá mér nokkuð við verðlagið,“ segir Yulia og brosir.

Úr varð að Yulia, börnin hennar tvö og mamma hennar flúðu til Íslands.

„Fyrsta mánuðinn gistum við á gamla hótel Sögu sem stjórnvöld höfðu tekið undir að hluta til fyrir flóttamenn frá Úkraínu. Það var afskaplega vel tekið á móti okkar og ég á margar góðar minningar af þessum tíma því allir voru boðnir og búnir til að hjálpa til.“

Sem dæmi nefnir hún bakaríið í hverfinu, þar sem bakarinn gaf flóttafólkinu afgangsbakkelsi eftir hvern dag og gjafir og aðstoð frá fólki og fyrirtækjum sem öll vildu hjálpa.

„Á endanum fór ég til Blönduós þar sem vinkona mín býr. Hún hafði þá nýverið keypt aukaíbúð og við fengum að vera í henni næstu mánuði. Íbúðin var án húsgagna en um leið og vinkona mín setti inn á Facebook að við værum að flytja þangað, fylltist íbúðin af húsgögnum og nauðsynjavörum sem íbúar Blönduós buðu fram. Allir vildu hjálpa.“

Þegar Yulia bjó á Blönduósi kynntist hún Eggerti Guðmundssyni og fyrir rúmu ári síðan fluttist hún með börnin til hans í Reykjavík. Yulia segist lifandi dæmi þess að það sé hægt að finna stóru ástina í lífinu hvar sem er í heiminum, sama hverjar aðstæður eru.

Ástin

Eftir um sex mánuði kynntist Yulia síðan stóru ástinni í sínu lífi, Eggerti Guðmundssyni.

Hvernig kom það til?

„Á Tinder,“ segir Yulia og hlær dillandi hlátri.

„Við töluðum saman um tíma. Hann bjó í Reykjavík og loks kom að því að við hittumst þegar hann var á leiðinni til Akureyrar og ákvað að koma við á Blönduósi. Stuttu síðar keypti ég mér ódýran bíl en ég átti smá sparifé í Úkraínu. Á bílnum gat ég þá keyrt til Reykjavíkur til að hitta Eggert.“

Fyrir rúmu ári síðan flutti Yulia með börnin sín tvö og móður til Reykjavíkur.

Ég er lifandi dæmi þess að stóru ástina í lífi þínu getir þú fundið hvar sem er í heiminum, sama hvað hefur gengið á eða hver staðan er í þínu lífi.“

Í Reykjavík réði hún sig í starf hjá ferðaskrifstofu en í desember síðastliðnum ákvað hún að stofna sitt eigið ferðaþjónustufyrirtæki: Iceland Challenge.

Meðstofnandi Yuliu eru Eggert og enn á ný upplifir Yulia að allir séu boðnir og búnir til að aðstoða.

„Ég er í kúrs að læra um stofnun fyrirtækja á Íslandi en er líka svo heppin að tengdapabbi minn er endurskoðandi og hefur verið að aðstoða mig við pappíra og bókhald.“

Til að stofna ferðaskrifstofu þarf alls kyns leyfi, tryggingasjóð og fleira.

Hvernig kom það til að þú tókst ákvörðun um að fara í þennan rekstur yfir höfuð?

Ég sá bara fyrir mér að það væru litlar líkur á að ég myndi fá starf við hæfi á Íslandi, sem væri fyrir alvöru að nýta mína þekkingu og reynslu. 

Kannski er þetta möguleiki en það myndi í það minnsta taka mig mörg ár að vinna mig upp sem útlendingur í til dæmis launakjörum og öðru. 

Þannig að hvers vegna ekki að prófa frekar að stofna mitt eigið fyrirtæki og vinna mig upp þannig?“

Yulia stofnaði ferðaskrifstofuna Iceland Challenge og er bjartsýn á framtíðina. Yulia ákvað að vinda sér í rekstur vitandi það að eflaust fengi hún ekki störf né laun í samræmi við reynslu hennar og menntun frá Úkraínu. Nema þá með sitt eigið fyrirtæki. Iceland Challenge býður upp á ævintýraferðir fyrir erlenda ferðamenn sem heimsækja Ísland.Vísir/RAX

Í fréttatilkynningu um Iceland Challenge segir:

Iceland Challenge býður upp á adrenalínfyllt ævintýri í stórbrotinni íslenskri náttúru fyrir þau sem vilja meira en hefðbundnar rútuferðir um Gullna hringinn, en kjósa þau að ferðast í öruggu umhverfi og undir öruggri leiðsögn.

Yulia segir vissulega mikla samkeppni á markaðinum. Hins vegar þýði samkeppni ekki endilega að allir aðilar séu frábærir í þjónustu og rekstri.

Hún hefur því fullan hug á að stefna hátt með reksturinn. Enda Ísland vinsæll áningarstaður ferðamanna víðs vegar úr heiminum.

Sem dæmi um ævintýraferð á vegum Iceland Challenge má nefna þriggja daga ævintýri þar sem þátttakendur upplifa þrjá íslenska jökla og fá að ganga á skriðjökul, keyra vélsleða, kanna íshella og njóta ískaldrar fegurðar jöklanna úr lofti. 

Þá er boðið upp á nú daga matar- og náttúruáskorun, þar sem þátttakendur fá að kynnast mismunandi íslenskum matarhefðum í ólíkum landshlutum og skoða náttúruundur landsins samhliða.

Yfirlýst stefna Iceland Challenge er að ferðaskrifstofan vinnur ekki með þeim sem styðja árás Rússlands á Úkraínu og er ætlunin að hluti af hagnaði fyrirtækisins verði nýttur í að styðja við Úkraínumenn.

Lífið og líðanin

Yulia segir mikilvægt að fólk styðji Úkraínu.

„Fólk má ekki gleyma stríðinu þar eða venjast því. Vegna þess að stríðið í Úkraínu er stríð sem varðar okkur öll. Ef það er hægt að ráðast svona á okkur, þýðir það einfaldlega að það sama væri hægt að gera við hvaða annað land í Evrópu. Svona má hreinlega ekki geta gerst.“

En hvernig líður fólki í kjölfar þess að flýja og þurfa að byrja upp á nýtt?

„Mín upplifun árið 2022 var nokkuð öðruvísi en hjá mörgum því í raun gekk ég í gegnum þetta sama árið 2014. Ég var því að flýja í annað sinn og byrja upp á nýtt,“ segir Yulia.

Þá segir hún sálfræðimenntunina líka hafa nýst sér vel. Það sé erfitt að takast á við þær tilfinningar sem upp koma í kjölfar flótta.

„Fyrsta stigið er í rauninni lömun. Það er eins og maður einfaldlega frjósi. Þetta er of óraunverulegt. Síðan kemur tímabil þar sem maður fer í gegnum rosalega mikla reiði. Hvernig getur einhver komist upp með að ryðjast bara inn í heimalandið þitt og drepa fólk?“

Yulia segir að sem betur fer hafi henni tekist að komast út úr reiðinni eftir nokkurn tíma.

„Ég átta mig á því að það er fullt af fólki frá Rússlandi sem styður ekki við stríðsreksturinn gegn Úkraínu. Það er mikilvægt að maður beini sjónunum að þeim sem fyrir alvöru eru í ábyrgð en ekki einfaldlega öllum.“

Að flýja og skilja allt eftir er erfið upplifun, en drifin áfram af sjálfsbjargarviðleitninni.

„Í mínu tilfelli er stóra málið að vernda börnin mín. Að sjá til þess að þau séu ekki í hættu. Það er það sem drífur mann áfram og sú hugsun að reyna að skapa þeim sem eðlilegustu og bestu framtíðina gerir manni kleift að taka ákvarðanir um að flýja þótt það þýði nýtt land og allt öðruvísi samfélag.“

Yulia segir mikilvægt að fólk hvorki gleymi né venjist stríðinu í Úkraínu. Það sé dæmi um stríð sem gæti brotist út í hvaða Evrópulandi sem er. Yulia segir mikilvægt að gefa flóttafólki rými til að jafna sig á því áfalli sem það er að flýja heimaland sitt og segist til dæmis sjálf leggja meiri áherslu á að sonur hennar upplifi öryggi og stöðugleika frekar en að læra íslensku mjög hratt.

Aðspurð um það hvað Íslendingar mættu skilja betur þegar kemur að lífi og líðan flóttafólks segir Yulia.

Það er kannski helst það að pressa ekki um of á fólk. Til dæmis varðandi það að læra tungumálið. 

Því áfallið af því að flýja heimalandið er svo mikið og við þurfum að fá að fara í gegnum þennan rússibana tilfinninga. Þetta lömunarstig þar sem maður frýs og svo framvegis. 

Annað er ekki mannlegt.“

Sem dæmi tekur Yulia son sinn.

„Hann er í skóla í Reykjavík og byrjaður að eignast íslenska vini. Hann er líka byrjaður að tala svolitla íslensku en í augnablikinu er ég ekki að pressa sérstaklega á hann með tungumálið. Því frá því að hann er fjögurra ára gamall hefur hann ítrekað þurft að yfirgefa heimilið sitt, byrja með okkur á nýjum stað, nýr skóli, framandi umhverfi, nýir vinir og svo framvegis.“

Fyrst og fremst er Yulia því að leggja áherslu á að hann upplifi sig öruggan.

„Áherslan mín í dag er að hann upplifi sig öruggan þar sem við búum. Að hann læri að treysta að hér eigi hann heima. Að hann finni stöðugleika sem hann lærir að treysta á að verði áfram.“

Yulia segir samt mikilvægt fyrir flóttafólk að koma sér í einhverja virkni og það sem fyrst.

„Ég veit að það er oft ekki um auðugan garð að gresja fyrir flóttafólk að fá vinnu við hæfi. Margir voru kannski í góðum störfum og vel launuðum heima í Úkraínu en fá varla starf hér nema mjög langt frá því að vera sambærileg þeim sem viðkomandi starfaði áður. Ég myndi samt mæla með því að fólk reyndi hvað það gæti að vinna og koma sér í ákveðna virkni. Þó þarf að passa að pressa ekki um of á flóttafólk í þessu. Það felast svo miklar afleiðingar í því áfalli sem fólk hefur orðið fyrir þegar það flýr.“

Þá segir Yulia líka mikilvægt að fólk átti sig á því að fólk sem hefur komið hingað sem flóttafólk eru ólíkir einstaklingar og eðlilegt að fólk þurfi að takast á við sín áföll á mismunandi hátt.

„Það tekur mann tíma að sættast við að margt sem maður gerði áður, getur maður ekki lengur gert. Ég til dæmis starfaði við fjölmiðlasamskipti í Úkraínu og að markaðsmálum og viðburðum fyrir stórfyrirtæki þar. Þetta geri ég mér grein fyrir að er ekki að fara að gerast á Íslandi. En það er ekki þar með sagt að ég reyni þá ekki hvað ég get. Enginn okkar getur sagt til um hvernig framtíðin verður en við getum öll haft mikil áhrif á það hvernig framtíð við sköpum okkur,“ segir Yulia og brosir.

Bjartsýn og ástfangin kona í atvinnurekstri á Íslandi.


Tengdar fréttir

„Þetta er enginn helvítis félagskvíði, það bara þolir mig enginn“

„Þetta er enginn helvítis félagskvíði, það bara þolir mig enginn. Ég er bara svona. Ég er svona vegna þess að það er meitlað í genin mín“ segir Ásmundur Gunnarsson, sérfræðingur í klínískri sálfræði hjá Kvíðamistöðinni vera dæmi um setningar sem félagskvíðinn segir við okkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×