Innlent

Guð­mundur H. Garðars­son fallinn frá

Jakob Bjarnar skrifar
Guðmundur H. Garðarsson er fallinn frá, 95 ára að aldri.
Guðmundur H. Garðarsson er fallinn frá, 95 ára að aldri. Alþingi

Guðmundur H. Garðarsson fyrrverandi alþingismaður lést að Hjúkrunarheimilinu Sóltúni aðfararnótt 18. apríl. hann var 95 ára að aldri.

Þingfundur Alþingis í morgun hófst á því að Guðmundar var minnst en hann var kosinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrst 1974. En hann hafði áður tekið sæti sem varaþingmaður. Guðmundur átti sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins, bankaráði Verzlunarbanka Íslands og Íslandsbanka. Auk þessa sat hann í stjórn Lífeyrissjóðs Verslunarmanna. Guðmundur var áhugasamur um vestræna samvinnu og fyrsti formaður Varðbergs, félags áhugamanna þar um.

Birgir Ármannsson forseti Alþingis rakti feril hans, Guðmundur fæddist í Hafnarfirði en foreldar hans voru Garðar Svavar Gíslason kaupmaður og Matthildur Guðmundsdóttir húsmóðir. Guðmundur lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1950 og viðskiptafræði frá HÍ 1954. Hann stundaði framhaldsnám í hagfræði í Þýskalandi, var við nám í endurtryggingum hjá Lloyd´s í London og stúderaði markaðsfræði við Harvard í Bandaríkjunum 1965.

Guðmundur starfaði lengi sem fulltrúi og ritari Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og vann að verkalýðsmálum sem formaður VR. Þá sat hann í miðstjórn ASÍ.

Eiginkona Guðmundar var Ragnheiður Guðrún Ásgeirsdóttir læknaritari (1931-2008) en þau eignuðust tvo syni: Guðmund Ragnar og Ragnar Hannes en barnabörnin eru fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×