Fótbolti

Tuchel full­yrti að Gna­bry muni skora á móti Real Madrid í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serge Gnabry fagnar marki fyrir Bayern á móti Arsenal í Meistaradeildinni.
Serge Gnabry fagnar marki fyrir Bayern á móti Arsenal í Meistaradeildinni. Getty/Jacques Feeney

Það er óvenjuleg pressa á Serge Gnabry í leik Bayern München og Real Madrid í Meistaradeildinni í kvöld.

Thomas Tuchel, stjóri Gnabry hjá Bayern, lýsti því yfir fyrir leikinn að Gnabry muni skora mark í þessum mikilvæga leik í baráttunni um sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

„Serge Gnabry mun skora annað kvöld (í kvöld). Það mun gerast. Ég veit ekki hvernig ég veit það en það mun gerast,“ sagði Tuchel en Fabrizio Romano hefur þetta eftir honum.

Serge Gnabry er 28 ára gamall og hefur skorað 5 mörk í 17 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu. Hann hefur skoraði tvö af þessum fimm mörkum í Meistaradeildinni í vetur.

Fyrra markið skoraði hann á móti Manchester United í september og það síðara í fyrri leik átta liða úrslitanna á móti Arsenal.

Gnabry spilaði ekki seinni leikinn vegna meiðsla.

Hann mun augljóslega spila leikinn í kvöld ef marka má yfirlýsingaglaðan þjálfara hans. Það verða því mörg augu á honum og eflaust freistast einhverjir til þess að setja pening á það að hann skori mark í leiknum.

Fyrri leikur Bayern München og Real Madrid fer fram á Allianz Arena í München í kvöld og hefst klukkan 19.00 á íslenskum tíma. Leikurinn verður sýndur beint á Vodafone Sport og upphitun hefst á sömu rás klukkan 18.35.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×