Fótbolti

Bellingham reyndi að taka Kane á taugum fyrir vítið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jude Bellingham hvíslar einhverju að Harry Kane.
Jude Bellingham hvíslar einhverju að Harry Kane. getty/Sebastian Frej

Enginn er annars bróðir í leik og það sannaðist enn og aftur í gær þegar Bayern München og Real Madrid gerðu 2-2 jafntefli í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Þegar Harry Kane, leikmaður Bayern, var að búa sig undir að taka vítaspyrnu í upphafi seinni hálfleiks kom félagi hans í enska landsliðinu, Jude Bellingham, upp að honum og sagði eitthvað við hann. Kane heyrði ekki hvað Bellingham sagði en Madrídingurinn sagði honum það eftir leik.

„Í augnablikinu vissi ég ekki hvað hann sagði en ég talaði við hann eftir leik og hann sagðist vita að ég ætlaði að skjóta vinstra megin við markvörðinn,“ sagði Kane. 

„Á vellinum vissi ég að hann væri þarna en ekki hvað hann sagði. En ég skaut í hina áttina. Það er gott því ég sá markvörðinn fara aðeins of snemma af stað og ég kláraði dæmið.“

Kane kom Bayern í 2-1 þegar hann skoraði úr vítinu en Vinícius Júnior jafnaði fyrir Real Madrid úr víti sjö mínútum fyrir leikslok. 

Seinni leikur Real Madrid og Bayern fer fram á Santiago Bernabéu eftir viku. Sigurvegarinn í einvíginu mætir annað hvort Borussia Dortmund og Paris Saint-Germain í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Wembley 1. júní.

Kane, sem kom til Bayern frá Tottenham fyrir tímabilið, hefur skorað 43 mörk í jafn mörgum leikjum í öllum keppnum í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×