Innlent

Ís­lensk fjara á lista yfir bestu strendur heims

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Eystri-Fellsfjara er gjarnan kölluð Diamond Beach á ferðamannasíðum.
Eystri-Fellsfjara er gjarnan kölluð Diamond Beach á ferðamannasíðum. Vísir/Vilhelm

Eystri-Fellsfjara við Jökulsárlón er á lista yfir bestu strandir heims að mati ferðamálasérfræðinga. Þar er hún í fertugasta og fyrsta sæti af fimmtíu. Listinn er uppfærður á hverju ári og áður var Reynisfjara einnig á honum.

Á síðunni worlds50beaches.com er þessi árlegi strandalisti hýstur og er Eystri-Fellsfjara kölluð Diamond Beach þar eins og hún er oft kölluð á ferðamannasíðum. Í umsögn síðunnar er sagt að hún bjóði upp á strandarupplifun sem er engri lík í heiminum.

Þar er því lýst hvernig ísjakar frá jöklinum fljóti um lónið og skoli á svarta ströndina og að sjónarspilið sé alveg einstaklega tilkomumikið í ljósaskiptunum.

Fjaran er vinsæll áfangastaður ferðamanna.Vísir/Vilhelm

„Ótrúlega samsetning svarta sandsins og ísjakabrota gefa þessum stað ásýnd einhvers úr kvikmyndinni Interstellar,“ er haft eftir David Wade sem skrifar um ferðamál fyrir DW og á hann þar við að Eystri-Fellsfjara minni frekar á plánetuna Mann úr téðri kvikmynd en jarðneska strönd.

Efst á listanum situr ströndin Trunk Bay á Bandarísku Jómfrúareyjum, í öðru sæti Cala Mariolu á Sardiníu og í þriðja sæti er Meads Bay á karabísku eyjunni Anguilla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×