Fótbolti

Drakk átta bjóra fyrir beina út­sendingu

Sindri Sverrisson skrifar
Peter Schmeichel og Jadon Sancho virtust hafa gaman af látunum í Jamie Carragher sem var bersýnilega búinn að fá sér nokkra bjóra.
Peter Schmeichel og Jadon Sancho virtust hafa gaman af látunum í Jamie Carragher sem var bersýnilega búinn að fá sér nokkra bjóra. Skjáskot/@cbssportsgolazo

Viðtal Jamie Carragher við Jadon Sancho, leikmann Dortmund, hefur vakið athygli en Carragher viðurkenndi að hafa drukkið átta bjóra með stuðningsmönnum Dortmund áður en hann fór í beina útsendingu.

Carragher var að störfum fyrir CBS Sports sjónvarpsstöðina og fékk að upplifa leik Dortmund og PSG í Meistaradeild Evrópu, í gærkvöld, sem stuðningsmaður Dortmund.

Hann var svo í beinni útsendingu eftir leik og kvaðst hafa notið kvöldsins í botn, eignast fjölda nýrra vina og drukkið átta bjóra.

„Ertu nógu edrú til að gera þetta Jamie?“ spurði þáttastjórnandinn Kate Abdo þegar Carragher fór í loftið, en hann hafði Peter Schmeichel sér til fulltingis.

„Veistu, þetta er góð spurning. Ég er varla búinn að borða nema einn ostborgara um hálftvöleytið. Þess vegna er ég kannski svolítið drafandi því ég drakk átta bjóra í gula veggnum,“ sagði Carragher og vísaði til gulklæddra stuðningsmanna Dortmund.

„Ég er búinn að eignast nýja fjölskyldu og nýja vini,“ sagði Carragher og dró svo Jadon Sancho í viðtal sem var heldur skrautlegt, eins og sjá má hér að neðan.

Vildi bjór með Sancho sem drekkur ekki

Carragher vildi endilega fá skoðun Sancho á stuðningsmönnum Dortmund og vildi að hann lofaði því að mæta einhvern tímann í „gula vegginn“, stuðningsmannaskarann uppi í stúku.

Þá vildi Carragher endilega fá Sancho til að fá sér nokkra bjóra með honum ef Dortmund kæmist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, áður en Sancho benti honum á að hann drykki nú ekki áfengi. Viðtalið má sjá hér að ofan.

Dortmund vann leikinn 1-0 og er í ágætri stöðu fyrir seinni leikinn við PSG sem verður í París í næstu viku. Þar verður Sancho aftur á ferðinni en hann er að láni hjá sínu gamla félagi Dortmund frá Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×