Íslenski boltinn

„Þetta var eins og hand­bolta­leikur“

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Guðni Eiríksson, þjálfari FH.
Guðni Eiríksson, þjálfari FH. vísir/Hulda Margrét

FH tapaði í kvöld gegn Stjörnunni á Samsungvellinum í Garðabæ. Eftir ótrúlegar upphafsmínútur þar sem staðan var 4-1 eftir korter fyrir heimakonum þá bitu Hafnfirðingar frá sér í síðari hálfleik og náðu að minnka muninn niður í eitt mark. Lokatölur 4-3.

„Ég veit það ekki. Þetta var eins og handboltaleikur. Ég þarf bara að skoða það nánar áður en ég tjái mig um þann kafla. Við þurfum að skoða betur þennan kafla sem var eitthvað skrítinn. En heilt yfir, skrítið að segja það, þá er ég ánægður með stelpurnar,“ sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, aðspurður hvað hafi gengið á í upphafi leiks.

Guðni segist hafa stappað stálinu í sitt lið í hálfleik.

„Það er ekkert grín að fara inn í klefa að tapa 4-1 og margir sem hefðu kastað inn handklæðinu, við gerðum það svo sannarlega ekki og herjuðum á Stjörnuna allan seinni hálfleikinn. Með smá heppni hefðum við getað jafnað leikinn.“

En hvað var það sem vantaði upp á til þess að ná í stig að mati Guðna?

„Ég hugsa að það séu þessar sex eða sjö mínútur, þessi kafli í fyrri hálfleik sem var skrítinn. Ég get ekki alveg kastað hendur á það hvað það var. Þó ég sé með einhverjar hugmyndir í kollinum. Það er svona það sem gerir það að verkum og leggur grunninn að því af hverju við töpum leiknum.“

Guðni lítur þó á björtu hliðarnar eftir tapið í kvöld.

„Skrítið að segja það þá er ég ótrúlega ánægður með margt í þessum leik. Það voru mörk í honum og hann var skemmtilegur, örugglega gaman að horfa á hann, skemmtilegri en síðasti leikur hjá okkur. Núna finnst mér við hafa einhvern grunn til að byggja ofan á og við erum á þeim stað í dag að við munum taka þennan leik og byggja ofan á hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×