Menning

Barbara Hannigan stjórnar Sin­fóníu­hljóm­sveitinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Barbara Hannigan kom fram á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í apríl, sem söngvari og stjórnandi. Tónleikarnir hlutu mikið lof tónleikagesta og gagnrýnanda.
Barbara Hannigan kom fram á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í apríl, sem söngvari og stjórnandi. Tónleikarnir hlutu mikið lof tónleikagesta og gagnrýnanda. Sinfóníuhljómsveit Íslands

Kanadíski hljómsveitarstjórinn og söngkonan Barbara Hannigan hefur verið ráðin aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún mun taka við stöðunni í ágúst 2026 og gegna henni í þrjú starfsár.

Þetta er í fyrsta sinn sem Barbara Hannigan tekur að sér hlutverk aðalhljómsveitarstjóra en hún mun stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands á sex áskriftartónleikum á hverju starfsári, ásamt því að hljóðrita og stjórna sveitinni á tónleikaferðum. Sem listrænn stjórnandi mun Hannigan koma að framsæknu verkefnavali og dagskrárgerð hljómsveitarinnar.

„Forvitni, hugrekki og sköpunargleði er það sem einkennir hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands, auk metnaðar þeirra. Hljómsveitin er tæknilega mjög sterk en svo hafa þau líka dásamlegt ímyndunarafl. Í samstarfi mínu við hljómsveitina kviknaði í fyrsta sinn löngun hjá mér til að taka að mér hlutverk aðalhljómsveitarstjóra. Þegar saman kom þessi skapandi orka á hárréttum tímapunkti ákváðum við að leggja í þessa vegferð saman,“ segir Barbara Hannigan í tilkynningu.

Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, segir Barböru einstaka og liðsmenn sveitarinnar geti ekki beðið eftir að vinna með þessari framúrskarandi listakonu. 

„Við vitum að dagskráin með henni verður framsækin og spennandi og hlökkum til að vera hluti af hennar einstöku túlkun. Í fyrsta skipti sem hún steig á sviðið í Eldborg með hljómsveitinni upplifðum við eitthvað alveg sérstakt. Það er bæði hrífandi og gefandi að upplifa það mikla traust sem ríkir milli Barböru og hljóðfæraleikaranna. Við erum þakklát og stolt af því að vera fyrsta sinfóníuhljómsveitin til að ráða Barböru Hannigan sem aðalhljómsveitarstjóra og listrænan stjórnanda. Við vitum að hún á eftir að hafa mikil áhrif á hljómsveitina, á áheyrendur og íslenskt menningarlíf á komandi árum,“ segir Lára Sóley.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×