Enski boltinn

Rooney segir United losa sig við nær allan leikmannahópinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wayne Rooney gaf leikmönnum Manchester United engan afslátt í gær.
Wayne Rooney gaf leikmönnum Manchester United engan afslátt í gær. getty/Robbie Jay Barratt

Wayne Rooney, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, segir að félagið eigi að losa sig við stærstan hluta leikmannahópsins.

United vann Newcastle United, 3-2, í síðasta heimaleik sínum á tímabilinu í gær. United er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 57 stig.

Rooney var sérfræðingur Sky Sports um leikinn gegn Newcastle og sagði að United þyrfti að gera breytingar á leikmannahópi sínum fyrir næsta tímabil.

„Þú verður að byggja liðið í kringum Bruno [Fernandes]. Hann er góður og baráttuglaður en ég held að United ætti að losa sig við alla aðra leikmenn,“ sagði Rooney.

„Þú heldur ungu leikmönnunum og Bruno. Það verður að vera stór hreinsun. Það gerist ekki á einu ári heldur á næstu árum.“

Rooney segir að United eigi enn langt í land til að nálgast bestu lið Englands.

„Til að keppa í þessari þarftu betri leikmenn. Ekki misskilja mig, þetta eru góðir leikmenn. En til að berjast við Manchester City, Liverpool og Arsenal þurfa þeir betri leikmenn,“ sagði Rooney sem er markahæsti leikmaður í sögu United.

Á sunnudaginn mætir United Brighton í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar. Laugardaginn 25. maí er svo komið að bikarúrslitaleiknum þar sem United og City eigast við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×