Skoðun

Mesti stjórn­mála­maðurinn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Mikil áherzla hefur verið lögð á það af hálfu Höllu Hrundar Logadóttur að ekki sé rétt að kjósa fyrrverandi stjórnmálamann sem forseta. Þeim orðum hefur ljóslega fyrst og fremst verið beint að Katrínu Jakobsdóttur þó fleiri frambjóðendur hafi einnig tekið þátt í stjórnmálum. Þannig er Baldur Þórhallsson til að mynda fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar og Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur.

Hins vegar er það alls ekki svo að Halla Hrund hafi sjálf aldrei tekið þátt í stjórnmálastarfi þó mikil áherzla sé greinilega lögð á það að draga upp þá mynd. Til að mynda hafa þannig bæði hún og Kristján eiginmaður hennar verið á meðal pistlahöfunda á vefritinu Deiglan sem haldið hefur verið úti um árabil af lykilfólki í þeim armi Sjálfstæðisflokksins sem lengi var kenndur við Geir Haarde, fyrrverandi formann flokksins.

Tala út í eitt en segja ekki neitt

Hins vegar fer fátt sennilega meira í taugarnar á kjósendum í fari ýmissra stjórnmálamanna en þegar þeir tala út í eitt en segja í raun ekki neitt. Koma sér hjá því að svara spurningum og fara þess í stað að ræða eitthvað allt annað sem hentar þeim betur. Að því leyti má færa gild rök fyrir því að Halla Hrund sé mesti stjórnmálamaðurinn af þeim sem gefið hafa kost á sér í forsetakosningunum. Í neikvæðum skilningi þess orðs.

Meðal þess sem Halla Hrund hefur komið sér ítrekað hjá því að svara er hvort hún sé hlynnt eða andvíg því að Ísland gangi í Evrópusambandið. Þá hefur hún enn fremur ítrekað reynt að koma sér hjá því að svara fyrir þá vægast sagt furðulegu stjórnsýslu að undirrita viljayfirlýsingu með loftlagsráðherra Argentínu, fyrrverandi skólasystur sína í Harvard-háskóla, án nokkurs eðlilegs samráðs við hérlend stjórnvöld.

Þarf að geta sýnt tennurnar á móti

Hitt er svo annað mál að reynsla af stjórnmálum, svo ekki sé talað um mikil reynsla í þeim efnum líkt og Katrín Jakobsdóttir býr yfir, getur reynzt afar dýrmæt í embætti forseta lýðveldisins. Forsetinn þarf þannig að eiga í ýmsum samskiptum við stjórnmálamenn og getur jafnvel staðið frammi fyrir mjög erfiðum áskorunum við slíkar aðstæður. Þá kemur sér eðli málsins samkvæmt afar vel að vera vel veðraður í þeim efnum.

Fullyrða má að Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti lýðveldisins, hefði seint vísað Icesave-samningunum í þjóðaratkvæði ef ekki hefði verið fyrir mikla reynslu hans úr heimi stjórnmálanna. Það skiptir máli að kunna mannganginn í þeim efnum, vera með þykkan pólitískan skráp og kippa sér ekki upp við það þó stjórnmálamenn sýni tennurnar. Við þær aðstæður þarf forsetinn einfaldlega að geta sýnt tennurnar á móti.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×