Innlent

Maður minnisblaðanna, Covid og pólitík í Víglínunni

Heimir Már Pétursson skrifar

Fárra minnisblaða er beðið með annarri eins eftirvæntingu og minnisblaða Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra. Heimir Már Pétursson fréttamaður ræðir við hann og formanna og varaformann velferðarnefndar í Víglínunni á Stöð 2 í dag.

Það er ekki að undra að tillagna sóttvarnalæknis sé beðið með eftirvæntingu þar sem þau hafa mikil áhrif á líf alls almennings, sem verður að laga sig að þeim sóttvarnareglum sem Svandís Svavarsdóttir setur í framhaldi tillagnanna.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sér ekkert því til fyrirstöðu að stjórnvöld setji áætlun um afnám sóttvarnaaðgerða samhliða fjölgun bólusetninga. Hann muni samt halda áfram að leggja fram tillögur sem taki mið af framvindu faraldursins.Stöð 2/Einar

Vaxandi pirrings er hins vegar farið að gæta vegna sóttvarnaaðgerðanna hjá sumum, ekki síst hjá hópi stjórnmálamanna á leið í prófkjör fyrir komandi kosningar í haust.

Þá mæta þau Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar og Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður Vinstri grænna í þáttinn en þau gegna embættum formanns og varaformanns velferðarnefndar Alþingis.

Helga Vala Helgadóttir formaður Velferðarnefndar og Ólafur Þór Gunnarsson varaformaður nefndarinnar mæta í Víglínuna.Stöð 2/Einar

Sóttvarnaaðgerðir koma gjarnan til umræðu í nefndinni. Á fimmtudag varð heilbrigðisráðherra við beiðni fulltrúa Pírata í nefndinni um að fá afhent gögn á bakvið ákvörðun heilbrigðisráðherra um setningu umdeildrar reglugerðar um sóttkvíarhótel.

Rætt verður um dóm héraðsdóms á lögmæti reglugerðarinnar og hvort eðlilegt hefði verið að fá efnislegan dóm frá áfrýjunardómstiginu í Landsrétti.

Víglínan er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 17:40.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×