Fótbolti

Klopp myndi kjósa með af­námi VAR

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp er ekki hrifinn af því hvernig VAR er notað í ensku úrvalsdeildinni.
Jürgen Klopp er ekki hrifinn af því hvernig VAR er notað í ensku úrvalsdeildinni. Alex Livesey - Danehouse/Getty Images

Jürgen Klopp, fráfarandi knattspyrnustjóri Liverpool, segir að hann myndi kjósa með tillögu Wolves um að hætta notkun myndbandsdómgæslu í ensku úrvalsdeildinni.

Félög ensku úrvalsdeildarinnar munu kjósa um tillögu Wolves á næsta ársfundi deildarinnar þann 6. júní næstkomandi, en félagið hefur lagt fram formlega tillögu um að deildin afnemi notkun VAR.

Öll 20 félög deildarinnar munu greiða atkvæði um tillöguna, en eigi tillagan að ná fram að ganga þarf hún samþykki tveggja þriðjunga liða deildarinnar, sem þýðir að 14 af 20 liðum þurfa að samþykkja hana.

 

Mandbandsdómgæslan var tekin í notkun í ensku úrvalsdeildinni árið 2019 til að aðstoða dómara við lykilákvarðanir. Á þeim fimm árum sem tæknin hefur verið í notkun hafa þó ýmis vafaatriði vakið upp spurningar um notkun tækninnar.

Klopp segir að ef hann fengi að kjósa um tillöguna á ársfundi ensku úrvalsdeildarinnar þá myndi hann kjósa með afnámi VAR.

„Ég held ekki að félagið muni kjósa gegn VAR. Ég held að þeir muni kjósa um hvernig það er notað því þar er klárlega verið að gera eitthvað rangt,“ sagði Klopp.

„Miðað við hvernig VAR er notað þá myndi ég kjósa gegn tækninni því fólkið sem notar hana getur ekki gert það rétt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×