Fótbolti

Tvisvar sinnum rekinn á sama deginum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Massimiliano Allegri vann tíu stóra titla sem knattspyrnustjóri Juventus.
Massimiliano Allegri vann tíu stóra titla sem knattspyrnustjóri Juventus. getty/Giuseppe Maffia

Sautjándi maí er ekki mikill happadagur í lífi Massimilianos Allegri, fyrrverandi knattspyrnustjóra Juventus.

Allegi stýrði til sigurs á Atalanta í úrslitaleik ítölsku bikarkeppninnar á miðvikudaginn. Hann var rekinn af velli í uppbótartíma og byrjaði þá að týna af sér spjararnir.

Eftir leikinn bárust svo fréttir af því að Allegri hefði hótað fjölmiðlamanni. Við þessa hegðun gat Juventus ekki unað og Allegri var leystur undan störfum hjá félaginu í gær.

„Uppsögnin kemur í kjölfar ákveðinnar hegðunnar í og eftir úrslitaleik ítölsku bikarkeppninnar sem félaginnu þykir ekki eiga við gildi Juventus og þeirrar hegðunnar sem þeir sem eru í forsvari fyrir félagið eiga að standa fyrir,“ sagði meðal annars í tilkynningu Juventus.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Allegri er rekinn frá Juventus. Hann var einnig látinn fara frá félaginu 2019, þá sömuleiðis 17. maí. Sannkallaður óhappadagur fyrir Allegri.

Alls stýrði Allegri Juventus í átta tímabil. Á þeim vann liðið ítölsku úrvalsdeildina fimm sinnum, ítölsku bikarkeppnina fimm sinnum og komst tvívegis í úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Juventus er í 4. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar. Liðið mætir Bologna og Monza í síðustu tveimur leikjum sínum á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×