Fótbolti

Kostu­­leg við­­brögð Mané þegar hann heilsaði and­­stæðingi sínum fyrir leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sadio Mané með boltann í leiknum í gær.
Sadio Mané með boltann í leiknum í gær. Vísir/Getty

Sadio Mané skoraði tvö mörk fyrir Al-Nassr þegar liðið vann 5-0 sigur gegn Al-Fateh í sádiarabísku deildinni í knattspyrnu í gær. Atvik fyrir leik hefur fengið knattspyrnuaðdáendur til að brosa út í annað.

Sadio Mané átti góðan leik fyrir Al-Nassr í gær í öruggum 5-0 sigri liðsins gegn Al-Fateh. Mané skoraði tvö mörk en Cristiano Ronaldo skoraði hin þrjú.

Fyrir leikinn heilsuðust leikmenn liðanna líkt og vani er og er óhætt að segja að þar hafi Sadio Mané orðið hissa.

Þegar hann heilsaði varnarmanni Al-Fateh, Qassem Lajami, þurfti hann nefnilega að hugsa sig aðeins um. Það er kannski ekki skrýtið því tvíburabróðir Lajami, Ali Lajami, er samherji Mané hjá Al-Nassr.

Lajami tvíburarnir eru eineiggja og var engu líkara en Mané hafi haldið að liðsfélagi hans hefði svikið lit og væri kominn í búning Al-Fateh.

Svo var nú ekki. Ali var ekki valinn í leikmannahóp Al-Nassr fyrir leikinn en Qassem lék allan leikinn í vörninni.

Al-Nassr hefur ekki byrjað tímabilið í Sádi Arabíu vel en sigurinn í gær var sá fyrsti í þremur leikjum á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×