Fótbolti

Manchester United vilja fá Cucurella lánaðan frá Chelsea

Siggeir Ævarsson skrifar
Marc Cucurella er á óskalistanum hjá United
Marc Cucurella er á óskalistanum hjá United Vísir/Getty

Manchester United eru í neyðarleit að vinstri bakverði til að leysa Luke Shaw af næstu vikur. Marc Cucurella, leikmaður Chelsea, er sagður koma sterklega til greina og að viðræður á milli United og Chelsea séu þegar farnar af stað.

Cucurella gekk til liðs við Chelsea frá Brighton sumarið 2022 og var þá verðmætasti leikmaður í sögu liðsins en Brighton seldu hann á 55 milljónir punda. Hann hefur ekki náð að festa sig fyllilega í sessi í fjölskipuðu liði Chelsea og hefur ekkert komið við sögu á leiktíðinni sem hófst nú í ágúst.

Meiðslalisti United er í lengra lagi þessa dagana og Luke Shaw bættist á hann í vikunni. Reiknað er með að hann verði frá í nokkrar vikur. Diego Dalot kom inn í byrjunlið United í gær en Tyrell Malacia er einnig meiddur og því orðið fátt um fína drætti í stöðu vinstri bakvarðar.

Fabrizio Romano fullyrðir að United hafi þegar haft samband við Chelsea til að kanna möguleikann á að fá Cucurella lánaðan og bætir við að það séu þrjú nöfn á óskalista liðsins til þess að fylla stöðuna tímabundið og ódýrt.


Tengdar fréttir

Luke Shaw spilar ekki næstu vikurnar

Luke Shaw verður frá keppni næstu vikurnar vegna meiðsla. Hann er þriðji lykilmaðurinn sem Manchester United missir vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×