Tíska og hönnun

Steldu stílnum af konunum í forsetaframboði

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Konurnar í forsetaframboði eru með fjölbreyttan stíl.
Konurnar í forsetaframboði eru með fjölbreyttan stíl. SAMSETT

Glamúr, íslensk hönnun, látlaust eða litaglatt. Stíll hjá konunum sem eru í forsetaframboði árið 2024 er eins fjölbreyttur og þær eru margar og það getur sannarlega verið áhugavert að fylgjast með framboðsstíl hvers og eins. 

Lífið á Vísi tók saman nokkur skotheld ráð til þess að stela stíl þeirra kvenna sem eru í framboði í ár. 

Ásdís Rán

Ásdís hefur farið stílhreinar leiðir í framboðinu. Instagram @asdisran

Ísdrottningin og umrædda kyntáknið Ásdís Rán er dugleg að láta sjá sig í stílhreinum svörtum og/eða hvítum flíkum undanfarið ásamt einstaka litríkum flíkum á borð við gulan jakka, græna blússu og auðvitað jarðlitum í íslensku lopapeysunni. Ásdís skartar sömuleiðis gjarnan gylltum eins og á myndinni hér fyrir ofan.  

Hægt er að kaupa svipaðan jakka á netinu frá hönnuðinum Elisabetta Franci og kostar hann 477 pund eða um 84 þúsund krónur. 

Svartur jakki með gylltum tölum. thebs.com

Tískuhúsið Selfridges er með silfur satínblússur til sölu frá hönnuðinum Vince á 395 pund eða tæpar 70 þúsund krónur. 

Silfur satín blússa frá Vince. Selfridges

Halla Hrund Logadóttir

Bláa kápan er orðin ákveðið einkenni fyrir Höllu Hrund.

Halla Hrund Logadóttir klæddist ljósblárri kápu frá tískuhúsinu Ted Baker þegar að hún tilkynnti um framboð sitt. Blái liturinn hefur verið mjög vinsæll hjá henni og klæðir hana vel en sömuleiðis höfum við séð hana í lopapeysu og öðrum sterkum litum á borð við rauðan. 

Bláa framboðskápa Höllu er nú á útsölu á heimasíðu Ted Baker og kostar 220 pund eða um 38.600 krónur. 

Kápan er frá Ted Baker. Ted Baker

Halla Tómasdóttir

Halla virðist hrifin af íslenskri hönnun. Facebook: Halla Tómasdóttir

Halla Tómasdóttir klæðist oft í drapplita flíkur en leikur sér þó með mynstur og sterka liti inni á milli. Hún virðist vera mjög örugg í sínum persónulega stíl og kann vel að setja saman fatnað. Þegar að hún tilkynnti um framboð klæddist hún grænum kjól við smekklega ljósa hæla en undanfarið hefur hún verið áberandi í íslenskri hönnun. 

Í framboðsmyndatöku klæddist Halla silkikjól frá íslenska fatahönnuðinum Sævari Markúsi með gullhálsmen frá hönnuðinum Sif Benedicta. Báðir hönnuðir reka verslunina Apotek Atelier á Laugavegi 16. Kjóllinn kostar 62.990 krónur og hálsmenið 49.990 krónur. 

Halla Tómasdóttir í kjól frá Sævari Markúsi og með hálsmen frá Sif Benedicta.Skjáskot Instagram @hallatomas

Helga Þórisdóttir

Helga Þórisdóttir í ullarsetti.Íris Dögg

Helga Þórisdóttir virðist bæði hrifin af rólegum bláum tónum og jarðlitum. Hún er bæði með persónulegan og samtímis stílhreinan stíl, afslappaðan en smart og skartar stundum íslenskri hönnun. 

Líkur eru á að dressið hennar hér á myndinni sé frá íslensku hönnuninni As We Grow en á heimasíðu As We Grow má finna sambærilega svokallaða treflapeysu á 38.990 krónur. Ullarpils frá As We Grow kostar 29.500 krónur. 

Treflapeysurnar frá As We Grow koma í ýmsum litum. As We Grow
Ullarpils frá As We Grow. As We Grow

Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir í hönnun frá Steinunni. Instagram @katrinjakobsd

Katrín Jakobsdóttir er með einstakan, afslappaðan og séríslenskan stíl. Hún er lítið fyrir skæru litina en klæðist gjarnan gráu, svöru og hvítu og fer út í dökkfjólubláa og bláa tóna. Hún er mikið fyrir íslenska hönnun og virðist íslenski hönnuðurinn og listakonan Steinunn vera í miklu uppáhaldi en hönnun hennar einkennist mikið af tískuflíkum úr ull. 

Í framboðsmyndbandi sínu klæðist Katrín smart blússu og pilsi frá Steinunni en hún rekur verslun að Grandagarði 17. Ekki er hægt að hafa upp á verði flíkanna á heimasíðu Steinunnar en dökkblár ullartrefill frá henni sem færi vel við fatnað Katrínar kostar 380 dollara eða um 53 þúsund krónur. 

Dökkblár ullartrefill frá Steinunni. shop.steinunn.com

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir

Steinunn Ólína í dökkbláum flauelsjakka við dökkbláa skyrtu. Vísir/Vilhelm

Steinunn Ólína er mikið í 70's víbrunum sem eru sígildar og alltaf í tísku. Flauel, útvíðar buxur og grúví snið einkenna gjarnan hennar persónulega og einstaka stíl. 

Hún velur litapalletu í bláum og fjólubláum tónum og er sömuleiðis óhrædd við bleika litinn. 

Hér á myndinni fyrir ofan klæðist hún tvíhnepptum dökkbláum flauelsjakka við dökkbláa satín skyrtu. 

Svipaðan jakka má til dæmis finna hjá franska tískuhúsinu Curling Paris og kostar slíkur jakki 53.200 krónur. 

Sambærilegur jakki fæst hjá tískuhúsinu Curling Paris.Curling Paris

Það má finna dökkbláar satínskyrtur víða, þar á meðal hjá breska tískuhúsinu Hawkes&Curtis á 10.100 krónur. 

Dökkblá satín skyrta. Hawkes & Curtis





Fleiri fréttir

Sjá meira


×