Fótbolti

Tapið í gær þýðir að Kane missir af enn einum titlinum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Kane virðist vera fyrirmunað að vinna titla.
Harry Kane virðist vera fyrirmunað að vinna titla. Mateo Villalba/Getty Images

Deildarkeppni í þýsku úrvalsdeildinni lauk í gær með heilli umferð. Bayern München mátti þola 4-2 tap gegn Hoffenheim í lokaumferðinni og kastaði þar með frá sér öðru sætinu.

Óhætt er að segja að tímabilið hafi verið tímabil vonbrigða hjá þýska stórveldinu Bayern München sem féll snemma úr leik í þýsku bikarkeppninni og þurfti að sætta sig við að missa af sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu eftir tap gegn Real Madrid í undanúrslitum.

Þá þurfti liðið, sem hafði orðið þýskur meistari ellefu ár í röð, að horfa á eftir Þýskalandsmeistaratitlinum til Bayer Leverkusen sem fór taplaust í gegnum tímabilið.

Þetta hefur því ekki verið draumatímabil fyrir stjörnuframherjann Harry Kane, sem gekk til liðs við Bayern München frá Tottenham síðasta sumar. Kane, sem raðaði inn mörkum fyrir Tottenham, gekk í raðir Bayern til að vinna titla, enda hafði verið lítið um titilfögnuð hjá honum í Lundúnum.

Þrátt fyrir að hafa endað sem langmarkahæsti leikmaður þýsku deildarinnar mistókst Kane að vinna titil með Bayern á sínu fyrsta tímabili, og þrátt fyrir að enn sé langt í næsta tímabil er fyrsti titill næsta árs þegar farinn í súginn.

Þar sem Bayern tapaði síðasta leik tímabilsins missti liðið af öðru sæti deildarinnar og féll niður í það þriðja. 

Það þýðir að það er enginn möguleiki fyrir Bayern að keppa um þýska ofurbikarinn á næsta tímabili þar sem Þýskalandsmeistararnir mæta þýsku bikarmeisturunum, en Bayer Leverkusen er þýskur meistari og þýski bikarmeistaratitillinn mun falla til Bayer Leverkusen eða Kaiserslauten. Ef Bayer Leverkusen verður einnig þýskur bikarmeistari mun liðið sem hafnaði í öðru sæti þýsku deildarinnar berjast um þýska ofurbikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×