Fótbolti

Valur og Þróttur flugu inn í átta liða úr­slit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Amanda Andradóttir hlóð í þrennu fyrir Val í dag.
Amanda Andradóttir hlóð í þrennu fyrir Val í dag. Vísir/Pawel

Valur og Þróttur unnu afar örugga sigra er liðin mættu til leiks í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í dag. Þróttur vann 5-0 sigur gegn Fylki og Valskonur skoruðu átta gegn Fram.

Katherine Cousins kom Valskonum yfir gegn Fram strax á 15. mínútu leiksins áður en Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir skoraði tvö mörk með stuttu millibili.

Fanndís Friðriksdóttir og Ísabella Sara Tryggvadóttir sáu svo til þess að staðan í hálfleik var 5-0 með sitthvoru markinu.

Amanda Andradóttir Jacobsen átti svo sviðið í síðari hálfleik. Hún skoraði sjötta mark liðsins á 47. mínútu, það sjöunda á 69. mínútu og hún fullkomnaði svo þrennuna á 78. mínútu og þar við sat. Niðurstaðan því 8-0 sigur Vals sem flaug inn í átta liða úrslitin.

Þá vann Þróttur 5-0 sigur gegn Fylki þar sem Sierra Marie Lelii, María Eva Eyjólfsdóttir og Kristrún Rut Antonsdóttir sáu um markaskorun liðsins í fyrri hálfleik. Freyja Karín Þorvarðardóttir bætti svo fjórða markinu við snemma í síðari hálfleik og Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir skoraði fimmta markið í uppbótartíma.

Ásamt Val og Þrótti tryggðu Afturelding og FH sér einnig sæti í átta liða úrslitum. Afturelding vann 1-0 sigur gegn Víkingi og FH lagði FHL 3-2, en síðasti leikur 16-liða úrslitanna fer fram í kvöld þegar Stjarnan tekur á móti Breiðabliki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×