Fótbolti

Pulisic sjóðandi heitur en Mourin­ho mátti sætta sig við tap

Smári Jökull Jónsson skrifar
Christian Pulisic kom AC MIlan á bragðið í leiknum í kvöld með sínu öðru marki í jafnmörgum leikjum.
Christian Pulisic kom AC MIlan á bragðið í leiknum í kvöld með sínu öðru marki í jafnmörgum leikjum. Vísir/Getty

Fjórir leikir fóru fram í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. AC Milan vann góðan sigur á heimavelli en lærisveinar Jose Mourinho í Roma fóru fýluferð til Verona.

Fyrri í dag fóru fram tveir leikir. Frosinone komst á blað í töflunni með góðum heimasigri á Atalanta sem vann sigur á Sassuolo í fyrstu umferðinni.

Abdou Harroui og Ilario Monterisi komu Frosinone yfir í fyrri hálfleik og þrátt fyrir að Duvan Zapata hafi náð að minnka muninn snemma í síðari hálfleik komst Atalanta ekki nær en það. 2-1 sigur Frosinone því staðreynd.

AC Monza vann góðan 2-0 sigur á Empoli á heimavelli sínum í dag með tveimur mörkum frá Andrea Colpani en bæði lið töpuðu sínum leikjum í fyrstu umferðinni.

Í kvöld voru síðan leiknir tveir leikir. AC Milan tók á móti liði Torino á heimavelli og þar var það Christian Pulisic sem skoraði fyrsta markið á 33. mínútu eftir sendingu frá Ruben Loftus-Cheek en báðir komu þeir til Milan frá Chelsea fyrir tímabilið. Pulisic byrjar heldur betur vel á Ítalíu því hann skoraði einnig í fyrsta leik Milan um síðustu helgi.

Perr Schuurs jafnaði fyrir Torinu fyrir hlé en undir lok fyrri hálfleiks skoraði Milan tvö mörk. Fyrst skoraði Oliver Giroud af vítapunktinum og Theo Hernandez skoraði þriðja markið örskömmu síðar. Oliver Giroud skoraði annað mark af vítapunktinum á 65. mínútu og kom Milan í 4-1. Það urðu lokatölur kvöldsins og Milan með fullt hús stiga eftir tvær umferðir. 

Í Verona tóku heimamenn á móti Jose Mourinho og liðsmönnum hans í Roma. Ondrej Duda kom Verona yfir á 4. mínútu og Cyri Ngonge skoraði annað mark leiksins undir lok fyrri hálfleiks og kom Verona í 2-0.

Houssem Aouar minnkaði muninn í 2-1 á 56. mínútu en hann var einn þriggja sem kom inn hjá Roma í hálfleik. Isak Hien fékk rautt spjald í liði Verona fyrir að ræna Andrea Belotti upplögðu marktækifæri og Lorenzo Pellegrini skaut í þverslána úr aukaspyrnunni í kjölfarið.

Nær komust leikmenn Roma ekki og urðu því að sætta sig við 2-1 tap. Roma gerði 1-1 jafntefli gegn Salernitana í fyrstu umferðinni og því aðeins með eitt stig eftir tvo leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×