Skoðun

Njótum reynslu Katrínar

Valgerður Bjarnadóttir skrifar

Er ekki nóg fyrir hana að hafa verið forsætisráðherra? Af hverju vill hún verða forseti? Var ég spurð um Katrínu Jakobsdóttur. Sjálf hefur hún svarað þessu þannig að eftir að hún ákvað að hætta að taka þátt í stjórnmálum ekki seinna en við næstu kosningar, vilji hún samt halda áfram að gera gagn, standa vörð um grunngildi þjóðarinnar: lýðræði, mannréttindi og friðsamlegar lausnir.

Katrín Jakobsdóttir er kona á besta aldri, á tvö ár í fimmtugt. Hún hefur verið í stjórnmálastarfi í meira en tuttugu ár þar af forsætisráðherra í sjö. Það er ekki skrítið að hún vilji skipta um starf og ekkert er eðlilegra en að hún vilji nota reynslu sína á alþingi, í stjórnsýslunni og sem glæsilegur fulltrúi Íslands í alþjóðasamstarfi til að gegna embætti forseta Íslands. – Allt þetta þekkir hún eins og handarbakið á sér.

Ég hef dáðst að Katrínu í embætti forsætisráðherra í samsteypustjórninni, þykist vita að það hafi ekki verið auðvelt starf. Ég hef aldrei verið stuðningsmaður þeirrar ríkisstjórnar. Engu að síður finnst mér enginn vafi á að Katrínu hafi farist starfið vel úr hendi. Við búum í öflugu lýðræðisríki þar sem úr mörgum stjórnmálaflokkum er að velja, þess vegna verða ekki myndaðar ríkisstjórnir nema með málamiðlunum. Forystumaðurinn þarf að vera mannasættir, góður hlustandi og kunna að taka sjálfan sig út fyrir sviga – allt þetta kann Katrín – og allt þetta þarf að prýða forseta Íslands.

Katrín er mannvinur, hún er alþýðleg og skemmtileg, á löngum og stundum leiðinlegum fundum er aldrei langt í glettnina ef hún er viðstödd. Það er mikill kostur.

Ég styð Katrínu Jakobsdóttur í embætti foseta Íslands, nú sem fyrr skiptir hvert atkvæði máli.

Höfundur er ellismellur og fyrrverandi Alþingismaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×