Erlent

Ó­ljóst hvort þyrlan sé fundin

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Mynd frá leitarsvæðinu. Ekki liggur fyrir hvort þyrlan sé endilega fundin.
Mynd frá leitarsvæðinu. Ekki liggur fyrir hvort þyrlan sé endilega fundin. AP

Þyrlan sem flutti Ebrahim Raisi forseta Íran og utanríkisráðherrann Hossein Amirabdollahian er sögð hafa „lent harkalega“ á hálendi á norðvesturhluta Íran fyrr í dag vegna þoku. Íranskir miðlar tilkynntu fyrr í kvöld um að þyrlan væri fundin en talsmenn Rauða hálfmánans sögðu það ekki rétt og leit stæði enn yfir. 

Þyrlu Raisi var flogið yfir Austur-Aserbaídsjanhérað þegar hún brotlenti. Samkvæmt írönskum miðlum var slysinu lýst sem „harðri lendingu“ sem rekja megi til erfiðra veðuraðstæðna. Tehran Times hefur eftir Ahmad Vahidi innviðaráðherra Íran að áhöfn þyrlunnar hafi verið gert að nauðlenda henni vegna mikillar þoku. 

Veðuraðstæður á svæðinu eru sagðar verulega slæmar, mikil rigning, rok og þykk þoka. Ekki er búist við að veðrið gangi niður í nótt. 

Uppfært 18:18: Þyrlan er fundin, hefur Reuters eftir íranskri sjónvarpsútsendingu. Fleiri upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Uppfært 18:32: Embættismaður Rauða hálfmánans í Íran segir ekki rétt með farið í írönskum miðlum að þyrlan hafi fundist. Þá hefur sjónvarpsfréttamaður í Íran eftir Ali Akbar orkumálaráðherra að það sé ekkert að frétta af leitinni, það er, þyrlan sé ekki fundin. 

Þrátt fyrir það sé búist við að leitarsveitir séu í innan við tveggja kílómetra fjarlægð frá þyrlunni. 

Þyrlan í flugtaki í dag. AP

Samkvæmt fréttavakt Al Jazeera um málið náðist samband við meðlim áhafnarinnar á tíunda tímanum að staðartíma. Miðillinn hafði eftir talsmanni björgunarsveita í Íran að ekki hafi verið hægt að halda leit úr lofti áfram eftir að fór að dimma vegna þoku. Þá yrðu fleiri sjúkrabílar sendir á svæðið fyrir vikið. 

Auk forsetans og utanríkisráðherrans voru Malek Rahmati ríkisstjóri Austur-Aserbaídsjan og Ayatollah Mohammad Ali Ale-Hashem, fulltrúi leiðtoga Írans í Austur-Aserbaídsjan í þyrlunni. 

Þjóðarleiðtogar nágrannalanda hafa tjáð samstöðu með íranska forsetanum á samfélagsmiðlum í dag. Þar á meðal Narendra Modi forsætisráðherra Indlands og Shehbaz Sharif forsætisráðherra Pakistan. 

Þá gaf utanríkisráðuneyti Katar út yfirlýsingu þar sem öllum mögulegum stuðningi við björgunaraðgerðirnar er heitið. Yfirvöld í Rússlandi, Tyrklandi og Sádi-Arabíu hafa einnig boðið fram hjálparhönd.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur að auki gefið út tilkynningu þar sem greint er frá því að gervihnattakortlagning hafi verið virkt til að aðstoða við leitina. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×