Körfubolti

„Þetta eru tvö dúndurlið“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur
Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur Vísir/Vilhelm

Sverrir Þór Sverrisson var ánægður með frammistöðu síns liðs í sigrinum á Njarðvík í kvöld. Hann sagði einvíginu hvergi nærri lokið þó staðan væri orðin 2-0 fyrir Keflavík.

„Mér fannst við spila vel. Við spiluðum vel, vorum samt í vandræðum með fráköst eins og við höfum verið. Heilt yfir vorum við að spila fína vörn og þær voru hugmyndaríkar í sókninni sem er frábært,“ sagði Sverrir Þór í samtali við Vísi eftir leik um frammistöðu hans kvenna í kvöld.

„Við vorum að reyna að finna leiðir og mér fannst við gera það vel. Sterkur sigur en bardaginn heldur áfram.“

Keflavík byrjaði af gríðarlegum krafti í upphafi leiks og keyrði miskunnarlaust í bakið á liði Njarðvíkur sem oft á tíðum var lengi að koma sér aftur í varnastöðu, jafnvel eftir að hafa skorað á Keflavík hinu megin.

„Algjörlega, mér fannst við keyra í bakið á þeim strax og héldum áfram þó svo að þær hafi byrjað aðeins betur. Við erum bara í hörkubardaga, hörkueinvígi og það er 2-0. Við þurfum að hugsa um bara að vinna einn leik í viðbót. Þetta er langt frá því að vera búið.“

„Munum gera allt til að sækja sigur og klára þetta“

Keflavík fékk framlag úr mörgum áttum í kvöld. Sverrir sagði að breði hópurinn sem væri búið að tala um í allan vetur væri mikilvægur.

„Við erum með breiðan hóp og það er búið að tala mikið um það. Við viljum fá einmitt svona, að þetta sé að koma úr hinum og þessum áttum. Við förum ekkert á einhverjum tveimur eða þremur leikmönnum.“

Keflavík getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á heimavelli í næsta leik. Sverrir býst ekki við neinu öðru en harðri baráttu líkt og í fyrstu tveimur leikjunum.

„Þetta eru tvö dúndurlið. Við erum búin að vinna tvo leiki en það þarf að vinna þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. Nú þurfum við að setja markið hátt og reyna að sækja einn sigur í viðbót. Næsti möguleiki á því er á miðvikudaginn og við munum gera allt sem við getum til að sækja sigur og klára þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×