Íslenski boltinn

„Hún er með hjarta­galla en í góðum höndum núna og vonandi fer allt vel“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Andrea Marý hneig niður og hringja þurfti á sjúkrabíl. Leikurinn var flautaðar af í kjölfarið, nokkrum mínútum áður en uppbótartími rann sitt skeið.
Andrea Marý hneig niður og hringja þurfti á sjúkrabíl. Leikurinn var flautaðar af í kjölfarið, nokkrum mínútum áður en uppbótartími rann sitt skeið. vísir / anton brink

Alvarlegt atvik átti sér stað undir lok leiks á Kópavogsvelli þegar FH-ingurinn Andrea Marý Sigurjónsdóttir hneig skyndilega niður. Leikurinn var flautaður af og hún flutt burt með sjúkrabíl.

„Hún er með hjartagalla en er bara búin að vera á góðu róli síðustu tvö ár. Við vorum að vonast til að þetta myndi ekki gerast en því miður, þetta er bakslag fyrir hana og okkur. Ömurlegt og skelfilegt í raun að sjá hana eiga erfitt með að anda en hún er í góðum höndum núna og vonandi fer allt vel“ sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH. 

Andrea var með meðvitund og settist upp áður en sjúkabíll flutti hana á brott.

„Hún var með meðvitund en átti bara mjög erfitt með andardrátt og hjartað pumpaði á milljón. Hún gat ekki staðið upp og átti bara mjög erfitt, satt best að segja. Hörmulegt að horfa upp á leikmann sinn þjást svona.“

Guðni Eiríksson á hliðarlínunni fyrr í leiknum.vísir / anton brink

Leka inn ódýrum mörkum

Leiknum lauk með þriggja marka tapi FH-inga.

„Blikarnir skora þrjú og við komum boltanum ekki inn í net þeirra. Það er stutta sagan í þessu, mörk breyta leikjum. Við vorum svo sannarlega í fínum málum í fyrri hálfleik, komum okkur í góðar stöður, stöngin og svo framvegis, hann bara fór ekki inn boltinn.

Fáum á okkur skítamark í andlitið og erum að leka inn ódýrum mörkum sem við verðum að stoppa hratt og örugglega, þetta gengur ekki að við séum að leka inn. Það verður allt svo erfitt ef við þurfum alltaf að labba upp einhverja langa brekku. Stoppa þessi skítamörk.“

FH spilar í þriggja manna vörn með vængbakverði sem sækja mikið upp völlinn. Liðið hefur ekki náð góðum úrslitum í upphafi móts, þarf þjálfarinn að breyta leikskipulaginu?

„Meðan við skorum ekki mörk getum við ekki spilað svona kerfi, þá þurfum við að gera eitthvað annað“ sagði Guðni að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×