Skoðun

Ný­sköpun er svarið

Nótt Thorberg skrifar

Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir í loftslagsmálum virðast oft vera óyfirstíganleg. En hvað gerist ef við horfum á þessar áskoranir frá nýju sjónarhorni? Að nú sé einmitt tækifærið til að skrifa nýjan kafla, að endurmarka heiminn í átt að sjálfbærri og grænni framtíð. Árangur í loftslagsaðgerðum kallar nefnilega á nýja hugsun – nýja nálgun.

Umbreytingin sem er nauðsynleg kallar á að við endurskoðum og endurmetum sérstaklega með það fyrir augum að breyta. Fremur en að bregðast bara við þurfum við vera djörf, taka áhættu og endurhugsa hvernig við gerum hlutina. Þannig hugsun gefur sköpunarkraftinum lausan tauminn. Á þeim grunni skapast frjór jarðvegur fyrir nýsköpun og loftslagsmálin verða ekki leyst án nýsköpunar. Það er einmitt á þeim grunni sem fjölmörg fyrirtæki hérlendis hafa ákveðið að nálgast loftslagsmálin.

Nýsköpun á sviði loftslagsmála hérlendis er þannig fjölbreytt. Allt frá því að finna nýjar leiðir til að nýta betur núverandi auðlindir svo minnka megi kolefnisspor, yfir í að innleiða orkuskipti og þróa brautryðjendalausnir á sviði föngunar, förgunar og nýtingar kolefnis svo dæmi séu tekin. Nýsköpun felst ekki eingöngu í tæknilausnum heldur ekki síður í nýjum áhrifaríkum loftslagsvænni aðferðum.

Ísland er þannig orðin að gjöfulli uppsprettu hugvits og grænna lausna sem aðrar þjóðir horfa til. Þessi ferska hugsun og nálgun vekur eftirtekt. Það er mikilvægt að við miðlum og deilum okkar reynslu því það leysir enginn loftslagsmálin einn. Loftslagsmál eru hópíþrótt.

Það er því ekki að undra að Nýsköpunarvikan, sem fagnar fimm ár afmæli í ár, laði til sín breiðan hóp fyrirtækja, frumkvöðla, fjárfesta, stofnana og samstarfsaðila. Enda er loftslagsráðstefnan Ok, bye, hluti af nýsköpunarviku. Grænvangur styður þennan vettvang nýsköpunar og mun, ásamt fjölmörgum fyrirtækjum í baklandi Grænvangs, taka þátt í fjölbreyttri dagskrá hátíðarinnar. Við hlökkum til að eiga við ykkur samtal og samstarf um grænar lausnir framtíðar.

Sjáumst á nýsköpunarvikunni!

Höfundur er forstöðumaður Grænvangs. Grænvangur er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda í loftslagsmálum og grænum lausnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×