Körfubolti

92 prósent sigur­vegara leiks eitt frá árinu 2011 hafa orðið Ís­lands­meistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tindastólsmenn unnu leik eitt í fyrra og urðu Íslandsmeistarar. Þeir töpuðu leik eitt árið á undan og urðu þá að sætta sig við silfur.
Tindastólsmenn unnu leik eitt í fyrra og urðu Íslandsmeistarar. Þeir töpuðu leik eitt árið á undan og urðu þá að sætta sig við silfur. Vísir/Hulda Margrét

Hversu mikilvægur er fyrsti leikur Vals og Grindavíkur í úrslitaeinvígi Subway deildar karla í körfubolta í kvöld? Ef við skoðum síðustu tólf lokaúrslit þá er mikilvægið gríðarlegt.

Leikur eitt hjá Val og Grindavík hefst klukkan 19.15 í kvöld og er sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18.30 á sömu stöð.

En aftur af mikilvægi þess að vinna leikinn í kvöld. Saga síðustu ára gefur okkur næstum því bara eina niðurstöðu.

Frá og með árinu 2011 hefur aðeins eitt lið orðið Íslandsmeistari af þeim sem hafa tapað fyrsta leik í úrslitaeinvíginu.

Það lið er lið ÍR frá 2019 sem vann KR í framlengdum fyrsta leik. ÍR vann þann leik í KR-húsinu og endurtók leikinn í leik þrjú. KR-ingar unnu aftur á móti báða leikina í Seljaskóla og tryggðu sér síðan titilinn með sigri á heimavelli í oddaleiknum.

Öll hin ellefu liðin sem hafa unnið leik eitt hafa orðið Íslandsmeistarar.

Þar á meðal eru lið Vals (2022) og Tindastóls (2023) sem unnu leik eitt þó með aðeins einu stigi undanfarin tvö ár. Báðir þeir leikir fóru fram á Hlíðarenda alveg eins og leikurinn í kvöld.

Mikilvægi leiks eitt er síst að minnka. 69% sigurvegar leiks eitt urðu Íslandsmeistarar á síðustu öld (1984-1999) og 64 prósent sigurvegara leiks eitt urðu Íslandsmeistarar á fyrstu ellefu lokaúrslitum á nýrri öld (2000-2010). Nú er sigurhlutfallið komið upp í 92 prósent á síðustu tólf árum.

Undanfarinn rúma áratug hefur sigur í fyrsta leik gefið skýr skilaboð um verðandi Íslandsmeistara. Það er því mikið undir í N1-höllinni að Hlíðarenda í kvöld.

  • Mikilvægi leiks eitt í lokaúrslitum karla:
  • -

  • Lið sem hafa unnið leik eitt í úrslitaeinvíginu
  • Á síðustu öld (1984-1999)
  • 11 Íslandsmeistarar (69%)
  • 5 silfurverðlaun (31%)
  • Á þessari öld (2000-2023)
  • 18 Íslandsmeistarar (78%)
  • 5 silfurverðlaun (22%)
  • Í síðustu tólf lokaúrslitum (2011-2023)
  • 11 Íslandsmeistarar (92%)
  • 1 silfurverðlaun (8%)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×