Innlent

Út­gjöld ríkis­sjóðs vegna Grinda­víkur hátt í hundrað milljarðar

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Bjarni Benediksson kynnti aðgerðir vegna Grindavíkur á blaðamannafundi í Hörpu í dag.
Bjarni Benediksson kynnti aðgerðir vegna Grindavíkur á blaðamannafundi í Hörpu í dag. Vísir/Vilhelm

Heildarumfang útgjalda sem ríkissjóður hefur efnt til vegna náttúruhamfara við Grindavík stefnir í hundrað milljarða. Forsætisráðherra segir skyldur gagnvart heimilum vega þyngra en gagnvart atvinnustarfsemi.

Ríkisstjórnin boðaði til blaðamannafundar í Hörpu í dag. Þar voru kynntar tillögur að stuðningslánum til grindvískra heimila og fyrirækja í bænum að viðbættum viðspyrnustyrkjum, framhaldi launastuðnings og hráefnis- og afurðatryggingum. Þá verður sérstakur húsnæðisstuðningur við Grindvíkinga framlengdur til áramóta.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sagðist gera sér grein fyrir að ekki væri hægt að mæta kröfum allra.

„En við höfum gengið mjög langt. Heildarumfang útgjaldanna sem við höfum efnt til vegna Grindavíkur stefnir í átt að hundrað milljörðum.”

Ekki stendur til að ríkið kaupi upp atvinnuhúsnæði líkt gert var við íbúðarhúsnæði.

„Það er meðal annars vegna þess að við lítum þannig á að skyldur okkar gagnvart heimilum séu ríkari en gagnvart atvinnustarfsemi, sem alltaf hlýtur í eðli sínu upp að vissu marki að vera áhættusöm. Við erum með fyrirkomulag hér á landi í hlutafélagaforminu sem tryggir að menn geti takmarkað áhættu sína.“

Önnur úrræði en uppkaup standi fyrirtækjaeigundum til boða.

„Við erum með viðspyrnustyrkina, þetta eru hreinir styrkir til rekstraraðila vegna þess að tekjur þeirra hafa skroppið saman. Við erum að borga laun fyrir þá sem ekki geta sótt vinnu og svo framvegis,“ segir Bjarni. 

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, minnti á að Grindvíkingar hefðu lagt mikið til þjóðarbúsins í gegnum árin og ætli sér að gera það áfram.

„Auðvitað hefðum við gjarnan vilja sjá meira, sérstaklega fyrir fyrirtækin, en eins og forsætisráðherra sagði þá er ekki hægt að gera allt fyrir alla. En við þökkum fyrir það sem vel er gert.“

Gera má ráð fyrir að kostnaður ríkisins af þeim aðgerðum sem þegar hefur verið ráðist í og eru áformaður sé hátt í hundrað milljarðar.Vísir/Vilhelm


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×