Enski boltinn

Kudus orðinn leik­maður West Ham

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kudus kemur til West Ham frá Ajax.
Kudus kemur til West Ham frá Ajax. Vísir/Getty

West Ham hefur gengið frá kaupunum á Mohammed Kudus frá Ajax fyrir tæplea 40 milljónir punda plús upphæð sem bæst getur við síðar meir. Kudus skrifar undir fimm ára samning við Hamrana.

Hamrarnir hafa verið á eftir Kudus síðustu vikurnar og fyrir helgi var orðið nokkuð ljóst að hann yrði leikmaður West Ham innan fárra daga. Hann kvaddi Ajax með því að skora þrennu í Evrópuleik á fimmtudaginn og var síðan mættur til London í dag.

Skysports greinir frá því að ónefnt lið í ensku úrvalsdeildinni hafi boðið í Kudus í gær sem þá var búinn að ákveða sig að fara til West Ham.

„Mig hefur dreymt um að spila í svona deild síðan ég var lítill krakki. Mig hefur dreymt um þetta augnablik og ég er svo ánægður að vera hérna. Ég ætla ekki að stoppa, ég ætla að halda áfram,“ sagði Kudus þegar hann var kynntur til leiks í dag.

David Moyes þjálfari West Ham var gríðarlega sáttur með komu Kudus.

„Hann er ungur og hæfileikaríkur leikmaður sem hefur þegar skinið á hæsta stigi fyrir Ajax í Meistaradeildinni. Hann spilaði yfir 150 leiki þar og er aðeins 23 ára gamalla. Það kemur ekki á óvart að mörg lið hafi verið á eftir honum í sumar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×