Körfubolti

Hræddur við að fara heim eftir auðmýkjandi tap Frakka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nicolas Batum og félagar í franska landsliðinu ollu miklum vonbrigðum á HM í körfubolta.
Nicolas Batum og félagar í franska landsliðinu ollu miklum vonbrigðum á HM í körfubolta. getty/Takashi Aoyama

Einn reyndasti leikmaður franska karlalandsliðsins í körfubolta skóf ekki utan af því eftir að liðið féll óvænt úr leik á HM. Hann sagðist hreinlega vera hræddur að snúa aftur til Frakklands.

Frakkar þóttu líklegir til að afreka á HM en ollu miklum vonbrigðum á mótinu. Þeir töpuðu fyrir Kanadamönnum á föstudaginn og í gær lutu þeir í lægra haldi fyrir Lettum eftir að hafa kastað frá sér þrettán stiga forskoti í seinni hálfleik. Franska liðið féll þar með úr leik á HM.

NBA-stjarnan Nicolas Batum, sem hefur leikið með franska landsliðinu síðan 2009, var eyðilagður eftir tapið fyrir Lettlandi.

„Ég hef aldrei skammast mín í þessari treyju fyrr en núna. Ég er hræddur við að fara heim því við brugðumst fullt af fólki. Margir trúðu því að við myndum gera eitthvað sérstakt en við gerðum það ekki,“ sagði Batum sem skoraði þrettán stig gegn Lettlandi.

„Við brotnuðum saman líkamlega. Þeir voru sterkir og við stóðum ekki saman. Við losnuðum ekki við þá. Í þessum leik kristallaðist það sem hefur gerst undanfarnar fimm til sex vikur. Við erum mjög gott lið og höfum sýnt það í nokkur ár. Allir verða að líta í eigin barm eftir það sem gerðist í sumar: þjálfarar, leikmenn og hæstráðendur í sambandinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×