Erlent

Ísraels­stjórn víg­reif þrátt fyrir við­snúning Banda­ríkja­manna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þúsundir hafa flúið Rafah eftir að Ísraelsher boðaði rýmingu svæðis þar sem ráðist var í aðgerðir.
Þúsundir hafa flúið Rafah eftir að Ísraelsher boðaði rýmingu svæðis þar sem ráðist var í aðgerðir. AP/Abdel Kareem Hana

„Ég ávarpa óvini Ísrael og einnig okkar bestu vini og segi; Ísraelsríki verður ekki haldið niðri,“ sagði Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísrael, eftir að greint var frá því að Bandaríkjamenn hygðust láta af vopnasendingum til landsins.

Gallant ítrekaði afstöðu Ísraelsstjórnar og sagði hana myndu gera allt til að vernda ríkisborgara sína og standa gegn þeim sem freistuðu þess að tortíma Ísrael.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í kjölfar aðgerða Ísraelshers á afmörkuðu svæði í Rafah að Bandaríkjamenn myndu falla frá því að senda Ísrael vopn sem hægt væri að nota á þéttbýlum svæðum í borginni.

Bandaríkjastjórn hefur haft þá afstöðu í nokkurn tíma, og gert Ísraelsmönnum grein fyrir því, að hún styðji ekki áhlaup á Rafah, þar sem mannfallið gæti orðið gríðarlegt.

Talsmaður Ísraelshers sagði í gær að ákvörðun Biden skipti engu; herinn byggi nú þegar að nægum vopnum til að ná markmiðum sínum. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, var einnig vígreifur og sagði Ísraelsmenn myndu standa eina ef til þess kæmi.

John F. Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, sagði í gær að Biden styddi enn markmið Ísrael að útrýma Hamas en forsetinn teldi að það væri ekki lausnin að ráðast inn í Rafah.

Ísraelsmenn segja leiðtoga Hamas og fjórar herdeildir hafast við í borginni og aðgerðirnar á dögunum eru meðal annars sagðar hafa beinst gegn göngum og öðrum innviðum Hamas á svæðinu.

Hlé var gert á vopnahlésviðræðum í gær og hefur New York Times eftir heimildarmanni að það mætti meðal annars rekja til þess að Ísraelar hefðu tekið yfir landamærin að Egyptalandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×