Handbolti

Einar Bragi skrifaði undir tveggja ára samning í Sví­þjóð

Aron Guðmundsson skrifar
Einar Bragi Aðalsteinsson í leik með FH
Einar Bragi Aðalsteinsson í leik með FH Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Einar Bragi Aðalsteinsson landsliðsmaður Íslands í handbolta og leikmaður FH hefur skrifað undir tveggja ára samning við sænska stórliðið Kristianstad og gengur til liðs við félagið í sumar. 

Frá þessu greinir FH í yfirlýsingu en Einar hefur verið á mála hjá félaginu undanfarin tvö ár og freistar þess nú að enda tíma sinn þar á Íslandsmeistaratitli en FH er komið í úrslitaeinvígi Olís deildarinnar og mætir þar annað hvort Val eða Aftureldingu.

„Hann hefur hrifið FH-inga frá fyrsta degi með gleði sinni, orku, baráttu og gæðum,“ segir í yfirlýsingu FH. „Við FH-ingar hlökkum til að fylgjast með Einari Braga í atvinnumennskunni en fram að því munum við njóta tímans sem framundan er með Einari Braga og strákunum.“

Hjá Kristianstad eru menn afar sáttir með að hafa náð að klófesta Einar Braga. 

„Það voru mörg lið á eftir Einari. Það að hann hafi valið IFK Kristianstad er góð vísbending um það á hvaða stað við erum komin. Að vera aftur að berjast um hæfileikaríka leikmenn frá Norðurlöndunum sem vilja þróa leik sinn áfram áður en þeir taka svo næsta skref sitt í Evrópuboltanum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×