Enski boltinn

Tuchel daðrar við Man United og Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kann vel við sig á Englandi.
Kann vel við sig á Englandi. Christina Pahnke/Getty Images

Þýski knattspyrnustjórinn Thomas Tuchel virðist hafa mikinn áhuga á að snúa aftur til Englands en hann stýrði Chelsea frá janúar 2021 til síðla árs 2022. Hann er nú orðaður við Manchester United sem og Chelsea á nýjan leik.

Himm fimmtugi Tuchel stýrði Bayern München á nýafstaðinni leiktíð en verður ekki áfram í Bæjaralandi. Hann hefur einnig stýrt Mainz 05, Borussia Dortmund og París Saint-Germain.

Florian Plettenberg, sérfræðingur Sky Sports um allt sem við kemur Bayern og þýska boltanum, segir Tuchel hafa gríðarlega mikinn áhuga að snúa aftur til Englands. Rennir hann hýru auga til Manchester-borgar eða þá Lundúna á nýjan leik.

Umboðsteymi þjálfarans hafi nú þegar rætt lauslega við Man United varðandi hvort það sé möguleiki að Tuchel gæti verið þjálfari Rauðu djöflanna á næstu leiktíð. Erik ten Hag er talinn valtur í sessi eftir slakt tímabil en hann gæti þó bjargað starfi sínu takist honum að leggja Englandsmeistara Manchester City að velli í úrslitum ensku bikarkeppninnar.

Þá er segir Plettenberg að Tuchel gæti hugsað sér að vinna aftur fyrir Chelsea. Mögulega spilar þar inn í að Todd Boehly, einn af eigendum félagsins, mun hafa minni ítök á komandi misserum en þeir tveir náðu engan veginn saman þegar Tuchel starfaði síðast fyrir félagið.

Hvort Chelsea sé á þeim buxunum að reka Mauricio Pochettino er óvíst en liðið spilaði vel undir lok tímabils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×