Íslenski boltinn

Tel að ég geti hjálpað liðinu að ná í fleiri sigra

Kári Mímisson skrifar
Aron Sigurðarson fagnar marki sínu af innlifun.
Aron Sigurðarson fagnar marki sínu af innlifun. Vísir/Anton Brink

Aron Sigurðarson, leikmaður KR, var að vonum ánægður með sigur liðsins gegn FH þegar hann mætti í viðtal til Gunnlaugs Jónssonar strax að leik loknum. Aron kom KR yfir með marki úr vítaspyrnu eftir rúmlega hálftíma leik en það var hans fyrsta mark fyrir KR í deildinni.

„Það er gott að vinna og gott að finna sigurtilfinninguna aftur. Þeir lágu á okkur eiginlega allan seinni hálfleikinn og mikið hrós á alla strákanna að ná að halda þetta út. Mér fannst fyrri hálfleikurinn mjög góður og sigurtilfinningin er góð og hún nærir okkur.“ Sagði Aron þegar hann var spurður út í fyrstu viðbrögð eftir sigurinn.

Aron varð fyrir því óláni að meiðast í fyrsta leik KR gegn Fylki en hefur verið að koma til baka og byrjaði svo loksins í kvöld. Spurður út í hver staðan sé á honum segist hann allur vera að koma til og að hann telji sig geta hjálpað liðinu að vinna fleiri leiki.

„Þetta eru núna komnir þrír leikir hjá mér á stuttum tíma, tveir þar sem ég hef komið inn á og svo þessi. Það er gott að fá leiki, gott að komast sem fyrst í leikform og ná að njóta þess að spila. Ég tel að ég geti hjálpað liðinu að ná í fleiri sigra en núna er bara spennandi að sjá hvort að við komum inn í næsta leik með gömlu góðu 80 prósentin sem við höfðum mæt með í síðustu fimm leiki á undan þessum. Þannig að þetta er flottur sigur en við verðum að átta okkur á því hvað gaf okkur þennan sigur og það er það að við lögðum allt í leikinn og það verður að vera það sama á móti Vestra í næstu viku.“

Leikurinn í dag var ansi kaflaskiptur. Eftir bragðdaufar upphafs mínútur tóku KR-ingar öll völd á vellinum en í seinni hálfleik voru það FH-ingar sem réðu lögum og lofum. Aron hrósar Heimi Guðjónssyni, þjálfara FH, fyrir það hvernig hann brást við í hálfleik.

„FH er auðvitað með gott lið en mér fannst við vera yfir allan fyrri hálfleikinn en síðan taka þeir bara seinni hálfleikinn. Þeir eru með klókan þjálfara sem augljóslega breytti einhverju í seinni hálfleik þar sem að þeir komu mjög sterkir inn. Kannski er það líka automatískt hjá okkur að fara að verja einhverja forystu en eins og ég segi þá var það mjög sterkt hjá okkur að ná að halda þetta út því að þeir lögðu mikið á okkur í seinni hálfleik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×