Fótbolti

Juventus skoraði þrjú á átta mínútum og bjargaði stigi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Chiesa hóf endurkomuna.
Chiesa hóf endurkomuna. @SerieA

Bologna komst 3-0 yfir gegn Juventus í Serie A, ítölsku úrvalsdeild karla í fótbolta, en Juventus kom til baka og bjargaði stigi.

Thiago Motta, þjálfari Bologna, hefur verið orðaður við stjórastarf Juventus en félagið lét Massimiliano Allegri á dögunum þó svo að hann hafi stýrt liðinu til sigurs í bikarkeppninni. Paolo Montero stýrði því Juventus í kvöld en það byrjaði ekki byrlega.

Hinn 19 ára gamli varnarmaður Riccardo Calafiori kom Bologna yfir eftir aðeins tveggja mínútna leik. Á 11. mínútu bætti hinn 19 ára gamli Santiago Castro við öðru marki Bologna og staðan 2-0 í hálfleik.

Calafiori var aftur á skotskónum þegar átta mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og staðan orðin 3-0. Virtust leikmenn Juventus einfaldlega komnir í sumarfrí. Það er þangað til Montero setti þá Kenan Yıldız og Arkadiusz Milik inn á.

Federico Chiesa minnkaði muninn á 76. mínútu og nokkrum mínútum síðar skoruðu varamennirnir tveir á jafn mörgum mínútum. Milik minnkaði muninn í 3-2 á 83. mínútu og innan við 60 sekúndum síðar hafði Yıldız jafnað metin.

Mörkin urðu ekki fleiri í kvöld og lauk leiknum með 3-3 jafntefli. Liðin eru því áfram jöfn að stigum í 3. og 4. sæti þegar ein umferð er eftir. Bologna sæti ofar þökk sé örlítið betri markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×