Körfubolti

„Spilum eins og það sé enginn morgun­dagur“

Runólfur Trausti Þórhallsson og Andri Már Eggertsson skrifa
Daniel Mortensen var hetja Grindavíkur í kvöld.
Daniel Mortensen var hetja Grindavíkur í kvöld. Vísir/Diego

Daniel Mortensen setti niður þriggja stiga skot þegar 21 sekúnda var eftir af leik Grindavíkur og Vals í úrslitum Subway-deildar karla. Staðan þá var jöfn 89-89 en karfan frá Mortensen svo gott sem tryggði sigur Grindavíkur sem hefur nú jafnað metin í einvíginu. Daninn var því eðlilega kampakátur þegar hann mætti í viðtal eftir leik.

„Bilað, þetta var fram og til baka. Við vorum tveimur stigum yfir, þeir voru tveimur stigum yfir, það var jafnt. Ég var heppinn að hitta úr skoti í lokin.“

„Þetta var ekki besta sendingin frá D(edrick Basile), ég greip hann ekki nægilega vel en náði að taka skotið og það fór ofan í,“ sagði Mortensen um körfuna sem svo gott sem tryggði sigurinn.

Mortensen vissi ekkert hvernig hann átti að fagna.Vísir/Diego

Valur var betri aðilinn framan af leik en undir lok leiks tóku Grindvíkingar við sér.

„Við spilum eins og það sé enginn morgundagur. Við vissum að ef við myndum tapa þessum leik væri þetta nánast ómögulegt og við urðum því að verja heimavöllinn.“

Mortensen skoraði ekki mikið í síðasta leik en setti 22 stig í kvöld og hjálpaði liði sínu að vinna frækinn sigur.

„Ég kom inn í leik kvöldsins með annað hugarfar. Ég vildi gera allt sem ég gat til að hjálpa liðinu, þeir þurftu á því að halda að ég væri að skjóta svo ég lét bara vaða.“

„Liðsfélagar mínir treystu mér til að taka þessi skot og hvöttu mig til þess svo ég varð að skjóta,“ bætti Mortensen við.

„Það var mjög mikilvægt, 1-1 er allt önnur staða en 2-0. Núna þurfum við að reyna vinna einn á þeirra heimavelli,“ sagði hetja Grindavíkur að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×