Enski boltinn

Rodri kemur ekki til greina en Spánn á bestu stjórana

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland gæti verið valinn bestur annað árið í röð, en Rodri kemur ekki til greina.
Erling Haaland gæti verið valinn bestur annað árið í röð, en Rodri kemur ekki til greina. Getty/Neal Simpson

Átta leikmenn hafa verið tilnefndir sem leikmaður ársins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta en það er í höndum almennings og dómnefndar að skera úr um hver þeirra var bestur.

Athygli vekur að spænski miðjumaðurinn Rodri er ekki á meðal þeirra tilnefndu, þrátt fyrir að hafa gegnt lykilhlutverki hjá Manchester City og ekki tapað einum einasta leik á tímabilinu. City hefur tapað þremur af fjórum deildarleikjum sínum án Rodri.

Liðsfélagar Rodri, þeir Erling Haaland og Phil Foden, eru hins vegar tilnefndir og gæti Haaland því unnið verðlaunin annað árið í röð. Foden var á dögunum valinn bestur af samtökum fótboltafréttamanna á Englandi.

Þeir Martin Ödegaard og Declan Rice úr Arsenal, Cole Palmer úr Chelsea, Alexander Isak úr Newcastle, Ollie Watkins úr Aston Villa og Virgil van Dijk úr Liverpool eru einnig tilnefndir. Tilkynnt verður um verðlaunin 18. maí.

Spánverjar eru afar áberandi á listanum yfir þá stjóra sem tilnefndir eru sem besti stjóri tímabilsins. Fyrir utan Þjóðverjann Jürgen Klopp hjá Liverpool eru á listanum Spánverjarnir Pep Guardiola (City), Mikel Arteta (Arsenal), Unai Emery (Aston Villa) og Andoni Iraola (Bournemouth). Guardiola hefur unnið verðlaunin fjórum sinnum.

Haaland varð í fyrra fyrstur í sögunni til að vera valinn bæði besti leikmaðurinn og besti ungi leikmaðurinn, eftir 36 mörk í 35 deildarleikjum. Í vetur hefur hann skorað 25 mörk.

Haaland er aftur tilnefndur sem besti ungi leikmaðurinn í ár, ásamt Foden, Palmer og Isak, og auk þeirra eru Kobbie Mainoo úr Manchester United, Destiny Udogie úr Tottenham og William Saliba úr Arsenal tilnefndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×