Fótbolti

Fullt hús stiga hjá Njarð­víkingum og tvö rauð á Akur­eyri

Siggeir Ævarsson skrifar
Leikmenn Aftureldingar fagna fyrr í vor en höfðu ekki ástæðu til að brosa í dag
Leikmenn Aftureldingar fagna fyrr í vor en höfðu ekki ástæðu til að brosa í dag Twiter@umfafturelding

Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild karla í dag. Njarðvíkingar tylltu sér á topp deildarinnar í bili og Afturelding fór í fýluferð norður yfir heiðar.

Njarðvíkingar tóku á móti nýliðum Dalvíkur/Reynis og unnu sanngjarnan 3-0 sigur. Joao Ananias skoraði fyrsta mark leiksins á 43. mínútu en Oumar Diouck innsiglaði sigurinn svo með tveimur mörkum undir lok leiks, það fyrra úr víti.

Afturelding sótti ekki gull í greipar Þórs á Akureyri en liðið kláraði leikinn tveimur mönnum færri. Gunnar Bergmann Sigmarsson fékk rautt spjald á 49. mínútu þegar hann tók niður leikmann Þórs sem var að sleppa í gegn, en Afturelding leiddi á þeim tímapunkti 1-2.

Egill Orri Arnarsson jafnaði metinn fyrir Þór á 76. mínútu og var allt útlit fyrir að leiknum myndi ljúka með jafntefli en uppbótartíminn varð heldur betur tíðindamikill.

Oliver Bjerrum Jensen, leikmaður Aftureldingar, fékk rautt spjald á 92. mínútu og Rafael Victor kom Þórsurum svo yfir á 94. Hann lagði svo upp mark fyrir Sigfús Fannar Gunnarsson mínútu síðar, lokatölur 4-2 og Mosfellingar þurfa að bíða áfram eftir sínum fyrsta sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×