Innlent

Tveir fluttir á Land­spítala eftir á­rekstur á mótor­kross­brautinni í Mos­fells­bæ

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það virðist hafa verið fremur rólegt á vaktinni hjá lögreglu í nótt.
Það virðist hafa verið fremur rólegt á vaktinni hjá lögreglu í nótt. Vísir/Vilhelm

Slys átti sér stað á mótorkrossbrautinni í Mosfellsbæ í gærkvöldi þar sem tveir einstaklingar skullu saman. Voru þeir fluttir á Landspítala til skoðunar.

Frá þessu er greint í yfirliti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir verkefni gærkvöldsins og næturinnar en engar frekari upplýsingar fylgja um ástand viðkomandi.

Lögregla var í tvígang kölluð til vegna slagsmála í höfuðborginni, í öðru tilvikinu áttu átökin sér stað fyrir utan skemmtistað í miðbænum en í hinu tilvikinu voru tveir handteknir og vistaðir í fangageymslum.

Tilkynnt var um laus hross á Vesturlandsvegi við Hvalfjarðarveg og um rúðubrot í bifreið og biðskýli Strætó við Suðurlandsbraut. Þá voru höfð afskipti af einstaklingi sem er grunaður um vörslu fíkniefna.

Að minnsta kosti fimm ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis og þá voru skráningarmerki fjarlægð af fimm bifreiðum þar sem þær höfðu ekki verið færðar til skoðunar á tilsettum tíma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×