Enski boltinn

Kveðju­­leikur Klopp í hættu? | „Með­vitaður um stöðuna“

Aron Guðmundsson skrifar
Jurgen Klopp á aðeins tvo leiki eftir í starfi sínu sem knattspyrnustjóri Liverpool
Jurgen Klopp á aðeins tvo leiki eftir í starfi sínu sem knattspyrnustjóri Liverpool Vísir/Getty

Fari svo að Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fái gult spjald í leik Liver­pool á móti Aston Villa á mánu­daginn kemur er ljóst að hann mun ekki geta verið á hliðar­línunni í síðasta leik sínum á Anfi­eld gegn Wol­ves í loka­um­ferð ensku úr­vals­deildarinnar.

Reglur enska knatt­spyrnu­sam­bandsins í þessum efnum eru skýrar og er farið yfir stöðuna í umfjöllun á vegum The Athletic. Fari svo að knatt­spyrnu­stjóri safni saman þremur gulum spjöldum fer hann sjálf­krafa í eins leiks bann. Verði gulu spjöldin svo sex talsins á ein­hverjum tíma­punkti, á meðan á tíma­bilinu stendur, fer um­ræddur stjóri í tveggja leikja bann.

Eftir því sem gulu spjöldunum fjölgar verður refsingin svo þyngri og þyngri og sértu snældu­vit­laus á hliðar­línunni og safnar saman tólf gulum spjöldum er ljóst að þú verður dreginn fyrir dóm knatt­spyrnu­sam­bandsins og átt yfir höfði þér á­kæru fyrir mis­ferli.

Góðu fréttirnar fyrir stuðnings­menn Liver­pool eru hins vegar þær að Klopp, sem hefur fengið að líta tvö gul spjöld á tíma­bilinu, er með­vitaður um stöðuna og mun reyna sitt allra besta í því að halda sig á mottunni í komandi leik gegn Aston Villa.

„Ég hef verið með­vitaður um stöðuna til lengri tíma núna,“ segir Klopp að­spurður um stöðu sína á tveimur gulum spjöldum og mögu­legt bann með einu slíku til við­bótar. „Við gætum snúið þessu við og sagt að ég hafi að­eins fengið tvö gul spjöld á tíma­bilinu. Nokkrir af kollegum mínum hafa verið settir í bann er það ekki?

Ég hef róast með árunum. Ég þarf svo sem ekki að vera á hliðar­línunni á loka­degi tíma­bilsins en það væri kúl. Ég mun reyna mitt allra besta til að blandast ekki í ein­hverjar deilur.“

Margir á hættusvæði

Jur­gen Klopp er ekki eini knatt­spyrnu­stjóri deildarinnar sem þarf að feta veg góðrar hátt­semi og stillu til að koma í veg fyrir bann í loka­um­ferð ensku úr­vals­deildarinnar.

Knatt­spyrnu­stjórar á borð við Mikel Arteta hjá Arsenal, David Moyes hjá West Ham, Ange Postecoglou hjá Totten­ham, Thomas Frank hjá Brent­ford, Andoni Ira­ola hjá Bour­nemouth, Gary O´Neil hjá Wol­ves og Nuno Espi­rito Santo hjá Notting­ham For­est eru allir á hættu­svæði með tvö gul spjöld á bakinu.

Þá er Rober­to De Zerbi á hættu­svæði með fimm gul spjöld á bakinu. Eitt til við­bótar sendir hann í tveggja leikja bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×