Innlent

"Konurnar munu bjarga heiminum“

Biskup heimsótti Malaví og Kenía þar sem hún kynnti sér hjálparstarf á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. 	Mynd/þjóðkirkjan
Biskup heimsótti Malaví og Kenía þar sem hún kynnti sér hjálparstarf á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Mynd/þjóðkirkjan
„Konurnar í Malaví halda uppi samfélaginu og mér varð ljóst að jafnrétti kynjanna er lykillinn að breyttum og bættum heimi, það eru konurnar sem munu bjarga heiminum og menntun þeirra er fyrsta skrefið,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir biskup eftir nýafstaðna ferð til Malaví og Kenía þar sem hún kynnti sér hjálparstarf á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar.

Agnes segir það hafa verið einstaklega ánægjulegt að sjá afrakstur starfsins með eigin augum.

„Í Malaví hitti ég bónda sem fékk þrjár geitur frá Íslandi. Í dag á hann 67 geitur og getur framfleytt allir fjölskyldu sinni,“ segir hún. „Við sáum líka matjurtagarða sem hafa tekið mikinn vaxtarkipp með tilkomu brunna. Þarna er svo þurrt og gróðursnautt, en með vatninu er hægt að gæða garðana lífi.“

Agnes heimsótti einnig skóla og kirkjur á svæðunum sem hafa verið byggð fyrir íslenskt fé. Hún segir ásóknina þar svo mikla að núverandi byggingar anni vart starfseminni, enda vaxi söfnuðirnir hratt. „Fólk finnur að kirkjan styður það í þess daglega lífi og aðstoðar við allt sem viðkemur samfélaginu.“

Agnes hefur átt gott samtal við presta og biskupa á svæðunum þar sem hún ferðaðist auk þess sem hún predikaði í kirkjum. Það sem vakti þó einna mesta athygli hennar voru konurnar.

„Þær voru ákaflega atorkusamar og virkar í samfélaginu, talsvert virkari en flestir karlmannanna sem virtust eyða mestum tíma í að sitja í makindum undir tré og spjalla saman,“ segir hún. „Það er í höndum kvenna að breyta heiminum.“

Sem dæmi um þetta nefnir hún konur sem sáu um brunn einn í Malaví. Þar voru notendur brunnsins rukkaðir um örlítið gjald, sem nýtist til kaupa á varahlutum og til viðhalds auk þess sem þær þrífa í kringum brunninn, en hreinlæti er víða ábótavant. Agnes segir þakklæti fólksins hafi verið ríkt enda var hópnum alls staðar vel tekið með dansi og söng.

„Þessi ferð minnti mig á að allir geta hjálpað einhverjum, en enginn getur hjálpað öllum.“

- je




Fleiri fréttir

Sjá meira


×