Lífið

Aðstoða við makaleitina

Gerður Huld Arinbjarnardóttir og Rakel Ósk Orradóttir aðstoða einstaklinga við að finna ástina.
Gerður Huld Arinbjarnardóttir og Rakel Ósk Orradóttir aðstoða einstaklinga við að finna ástina. fréttablaðið/gva
„Þessi þjónusta er til víða um heim og við ákváðum að prófa að koma einni slíkri á laggirnar hér því okkur fannst þetta vanta,“ segir Gerður Huld Arinbjarnardóttir, önnur tveggja eigenda Sambandsmiðlunar. Fyrirtækið er hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og er ætlað að aðstoða fólk sem er í makaleit.

Þjónustan sem Sambandsmiðlun veitir er ætluð einstaklingum er hafa náð 25 ára aldri og eru í makaleit. Þangað leitar fólk sem hefur ýmist fengið nóg af skemmtanalífinu, stefnumótasíðum, var að koma úr langtímasambandi eða hefur miss maka sinn og veit ekki hvernig á að bera sig að. Þjónusta sem þessi hefur lengi verið í boði í Bandaríkjunum og kallast þar „matchmaking“.

Fyrirtækið veitir tvenns konar þjónustu sem einstaklingar geta skráð sig í; sambandsmiðlunarklúbbinn og VIP-áskrift. Fyrri kosturinn veitir afslátt á uppákomur á borð við hraðastefnumót, hópstefnumót og fyrirlestra. Seinni kosturinn er sérhæfðari og persónulegri og sér félagsráðgjafi um að para einstaklinga saman. Hátt í hundrað manns hafa skráð sig í Sambandsmiðlunarklúbbinn og um fimmtíu manns í VIP-áskriftina og hafa viðtökurnar verið mun betri en Gerður og meðeigandi hennar, Rakel Ósk Orradóttir, þorðu að vona.

„Við höfðum unnið mikla rannsóknarvinnu áður en við fórum af stað og vissum því að fólki þótti hugmyndin góð, en móttökurnar hafa samt verið betri en við þorðum að vona. Vonandi getum við aðstoðað einhverja við að finna ástina,“ segir hún og bætir við: „Við erum þegar byrjaðar að senda fólk á stefnumót og nokkur pör hafa farið á fleiri en eitt.”

Heimasíða Sambandsmiðlunar er www.sambandsmidlun.is

- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×