Viðskipti innlent

Allt að 90% taka óverðtryggð lán

Allt að níutíu prósent þeirra sem taka fasteignalán hjá bönkunum um þessar mundir kjósa að taka óverðtryggð lán. Lífeyrissjóðirnir eru ekki farnir að bjóða upp á óverðtryggð lán.

Íslenskum húsnæðiskaupendum hefur í raun ekki staðið annað til boða en verðtryggð húsnæðislán síðustu áratugi, lán sem hækka í takt við verðhækkanir á mat, flíkum, vörum og þjónustu í þjóðfélaginu. Síðustu rúm 20 ár hefur verðbólga á Íslandi verið að meðtali 5,8% á ári. Með slíka verðbólgu tekur það skuldara, sem tekur 10 milljónir að láni, vel yfir 30 ár að komast aftur niðurfyrir 10 milljónir.

Í dag bjóða allir stóru bankarnir upp á raunverulegan óverðtryggðan valkost - lán með föstum vöxtum sem eru jafnvel lægri en verðbólgan sem í dag mælist 6,5%.

Íslandsbanki reið á vaðið og hefur boðið upp á óverðtryggð húsnæðislán frá nóvember 2009. Síðan þá hafa 70% nýrra lántaka bankans kosið að taka óverðtryggt húsnæðislán.

Örstutt er síðan Landsbankinn fór að bjóða slík lán, eða í október, fá heimili eru því á bak við þeirra tölur. Engu að síður, af þeim sem tekið hafa ný lán hjá bankanum hafa 84% kosið óverðtryggð lán en 16 prósent verðtryggð.

Viðskiptavinir Arionbanka skera sig ekki úr, bankinn hóf að lána óverðtryggð húsnæðislán í haust - síðan þá hafa 90% viðskiptavina Arionbanka tekið óverðtryggð fasteignalán - og aðeins 10% verðtryggð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×