Fastir pennar

Alþingi þarf að vanda sig

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Lítil innistæða er fyrir kveinstöfum og óbótaskömmum stjórnarmeirihlutans á Alþingi vegna þess að hann brann inni með tillögu sína um þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá samhliða forsetakosningunum í sumar. Um þessi málalok getur stjórnarmeirihlutinn kennt sjálfum sér og engum öðrum.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins hafði tillögu stjórnlagaráðs að breyttri stjórnarskrá til umfjöllunar í fimm mánuði. Í stað þess að fara efnislega ofan í saumana á málinu, leita umsagna sérfræðinga, skýra óskýrt orðalag, lagfæra misræmi í ákvæðum – með öðrum orðum gera það sem þingnefnd á að gera við þingmál – skilaði meirihluti nefndarinnar af sér ómerkilegri og illa unninni þingsályktunartillögu um að þjóðin yrði spurð álits á tillögu stjórnlagaráðs.

Tillagan kom fram í síðustu viku, nokkrum dögum áður en frestur til að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu í júnílok rann út. Þar var gengið út frá því að fólk tæki afstöðu til plaggs sem yrði svo breytt síðar. Ennfremur átti að leita leiðsagnar þjóðarinnar um fimm álitamál tengd stjórnarskrá.

Greinargerðin sem þessari tillögu fylgdi, eftir fimm mánaða „þrotlausa" vinnu, var minna en hálf blaðsíða sem gefur kannski til kynna hvaða hugsun var lögð í málið. Þar var engan rökstuðning að finna fyrir því hvers vegna spurt var um þessi fimm álitaefni en ekki önnur, til dæmis um forsetaembættið. Engin rök voru heldur færð fram fyrir því hvers vegna spurningarnar skyldu orðaðar eins og raun bar vitni eða hvaða gildi svör við þeim myndu hafa í raun.

Eftir að hafa farið yfir þingsályktunartillöguna með landskjörstjórn og nokkrum sérfræðingum á sviði lögfræði og stjórnmálafræði, sem fundu spurningunum býsna margt til foráttu, lagði meirihlutinn fram tillögur um veigamiklar breytingar á fjórum spurningum af sex. Engar spurningar bættust við og enginn frekari rökstuðningur kom fram. Þetta gerðist daginn áður en fresturinn til að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu rann út.

Það liggur svo fullkomlega í augum uppi að málið var vanreifað og óklárað af hálfu Alþingis að það er mikil blessun, en alls ekki bölvun, að þjóðin skuli ekki verða spurð álits á tillögum um breytingar á stjórnarskrá samhliða forsetakosningunum.

Eftir sem áður er full ástæða til að klára heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Og þjóðin á að sjálfsögðu að fá að segja sitt álit á tillögu um breytta stjórnarskrá. Nú gefst Alþingi færi á að vinna vinnuna sína og vanda til verka. Þingið þarf að taka efnislega afstöðu til þeirra tillagna sem fyrir liggja, tryggja að ákvæði stjórnarskrár séu skýr og ákveðin en ekki galopin fyrir túlkun og ekki innri mótsagnir í grundvallarplaggi stjórnskipunarinnar. Um tillögur sem uppfylla þessi skilyrði þarf síðan að leitast við að ná eins breiðri samstöðu á þingi og hægt er. Að þessari vinnu lokinni er tímabært að leggja tillögur fyrir þjóðina, en ekki fyrr.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×