Innlent

Óperukórinn söng á kostnað aldraðra

„Við vissum ekki að styrkurinn kæmi úr Framkvæmdasjóði aldraðra og hefðum ekki þegið hann ef það hefði legið ljóst fyrir,“ segir Garðar Cortes, stjórnandi Óperukórsins í Reykjavík, sem fékk hálfa milljón í styrk úr framkvæmdasjóði aldraðra árið 2004.

Meðal annarra sem fengu greidda styrki úr sjóðnum á árunum 1999 til 2006 voru Ungmennafélag Íslands, Söngskólinn í Reykjavík, Óperukórinn í Reykjavík, Tónaljón, Lionsklúbburinn í Búðardal, Kvenréttindafélag Íslands og fleiri verkefni og stofnanir sem ekki hafa bein tengsl við öldrunarþjónustu.

Þetta kom fram í svari Sivjar Friðleifsdóttur heilbrigðisráðherra í vikunni við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um sundurliðun styrkja úr sjóðnum fram til ársins 2006. Ásta segir heilbrigðisráðherra hafa dregið að svara í mánuð. „Það lítur út fyrir að ráðherra hafi leikið sama leik og síðast þegar hann veitti upplýsingar um sjóðinn í fyrra. Þá útbýtti hann svarinu síðasta dag þingsins þannig að ekki var hægt að taka það til umræðu. Þetta hefur nú endurtekið sig,“ segir Ásta.

Sundurliðunin á styrkjum, sem heilbrigðisráðherra afhenti á síðasta ári, leiddi í ljós að tæplega helmingi af peningum sjóðsins var varið í önnur verkefni en endurbætur og uppbyggingu dvalarheimila aldraðra. Megintilgangur sjóðsins er þó að standa straum af þeim verkefnum.

Tölur í nýju svari ráðherrans stemma ekki við þau svör sem hann skilaði af sér á síðasta þingi. Upphæðirnar eru lægri auk þess sem nokkra styrkþega er ekki að finna í nýju svari ráðherra. Þá ber svörum ráðherra um ástæður styrks til Óperukórsins í Reykjavík ekki saman við svör kórstjóra. Í svari ráðherra segir að styrkur hafi verið veittur til kórsins vegna tónleikahalds hans á öldrunarstofnun. Það kannast kórstjórinn Garðar Cortes ekki við.

Einu hugsanlegu ástæðuna fyrir styrkveitingunni til Óperukórsins telur Garðar vera þá að þetta kunni að vera greiðsla fyrir söng á Landspítalanum. Aldraðir hefðu þó hvergi komið nálægt því.

Heilbrigðisráðherra vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×