Innlent

Mótmælendur handteknir við Þjóðleikhúsið

Fáninn sem hópurinn kom fyrir á hlið Þjóðleikshússins.
Fáninn sem hópurinn kom fyrir á hlið Þjóðleikshússins. MYND/Saga

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók um klukkan hálf fimm í dag fimm einstaklinga fyrir brot á fánalögum. Hópurinn var búinn að setja upp stóra eftirmynd af íslenska þjóðfánanum á Þjóðleikhúsið þar sem stjóriðjustefnu stjórnvalda var mótmælt. Á fánanum var skjöldur með merkjum fyrirtækjanna Alcoa, Alcan og Norðuráls.

„Okkur var sagt að við mættum ekki vanvirða íslenska fánann," sagði Saga Ásgeirsdóttir, einn mótmælenda, í samtali við Vísi. „Hins vegar virðist vera hægt að vanvirða allt það sem fáninn stendur fyrir."

Hópurinn, sem samanstendur af fjórum Íslendingum og einum Bandaríkjamanni, var fluttur á lögreglustöð og þar var hver og einn látinn skrifa niður nafn og heimilisfang. Að því loknu var fólkinu sleppt.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu verður fólkið væntanlega kallað til yfirheyrslu og skýrslutöku seinna í vikunni. Ekki liggur fyrir hvort ákært verður í málinu en fólkið gæti meðal annars átt yfir höfði sér ákæru fyrir brot á fánalögum og fyrir að hafa farið upp á þak Þjóðleikshússins í leyfisleysi.

Í yfirlýsingu sem hópurinn sendi frá sér kemur fram að með mótmælunum vildi hópurinn tjá þá skoðun sína að Íslendingar væru langt frá því að vera sjálfstæð þjóð því landið hafi verið tekið yfir af álfyrirtækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×