Innlent

Vill Guðfinnu úr Evrópuráðinu vegna sköpunarkenningarmála

Líffræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands fer fram á það að fulltrúi Íslands í Evrópuráðinu, Guðfinna Bjarnadóttir þingmaður, verði kölluð heim og nýr fulltrúi skipaður í hennar stað. Ástæðan er sú að Guðfinna greiddi atkvæði gegn ályktun ráðsins þar sem varað var við því að sköpunarkenningin yrði kennd sem vísindagrein í hinu opinbera menntakerfi Evrópulanda.

Í ályktun frá líffræðiskor er afstaða Guðfinnu hörmuð og bent á að þróunarkenningin hafi stöðu vísindakenningar sem yfirgripsmesta útskýring vísinda á fyrirbærum lífsins. Hún hafi staðist strangar prófanir og sé grundvallarkennisetning líffræði, raunvísinda og læknisfræði. Ýmsir trúarhópar reyni hins vegar ákaft að koma sköpunarkenningunni að sem vísindum en hún sé ekki prófanleg tilgáta og eigi ekkert erindi í umræðu og kennslu í vísindum.

Guðfinna sagði í samtali við Vísi í síðustu viku að með atkvæði sínu hafi hún ekki verið að lýsa stuðningi við því að sköpunarsagan yrði kennd sem vísindaleg staðreynd hér á landi. Hún hafi fremur verið að lýsa andstöðu sinni við að Evrópuráð þingmanna væri að hlutast til um námsefni aðildarlanda sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×