Innlent

Línubátar með pokabeitu afla tvöfalt meira en aðrir

Línubátar sem gera út við Húnaflóann og nota pokabeituna frá Súðavík afla tvöfalt meir en þeir bátar sem nota hefðbundna beitu. Þeir sem nota pokabeituna fá að jafnaði 300 kg á balann en þeir sem nota hefðbundna beitu fá 150 kg að meðaltali.

Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri á Súðavík, segir að pokabeituverksmiðjan Aðlöðun í bænum anni nú engan veginn eftirspurn. "Það er núna kominn um tveggja vikna biðlisti eftir pokabeitunni og eftirspurnin eykst stöðugt," segir Ómar Már.

Að sögn Ómars spilar hér inni í að ýsan sækir mun meira í pokabeituna en þorskur. „Þar sem enginn vill koma með þorsk að landi sem meðafla má segja að aflaskerðingin á honum komi okkur til góða svo furðulega sem það nú annars hljómar," segir Ómar.

Að sögn Ómars hefur ekki gengið sem skyldi að fá fjárfesta að áframhaldandi vexti Aðlöðunnar þótt merki séu nú um vaxandi áhuga innlendra fjárfesta.

„Ég vil nefna hér að Nýsköpunarsjóður hafnaði því að leggja fjármagn til verksmiðjunnar sem ég tel alveg út úr kortinu," segir Ómar. „Maður hefði haldið að það væri einmitt verkefni Nýsköpunarsjóðs að hjálpa sprotafyrritækjum eins og Aðlöðun."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×