Skoðun

Sjálfstæðisflokkurinn hinn nýi

Helgi Helgason skrifar
Grein Sigurðar Líndal í Fréttablaðinu 15. jan. er umhugsunarverð. Í greininni kemur fram álit hans á því í hvaða átt Sjálfstæðisflokkurinn sé að þróast. Tilefnið er enn eitt dæmið um þá valdníðslu sem fyrirmenn í Sjálfstæðisflokknum skirrast ekki við að nota þegar þeim hentar. Sigurður talar um að hann hafi talið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi alltaf viljað standa vörð um réttarríkið. Hann talar um ofsatrúarhóp og ofstækisöfl innan flokksins.

Það er rétt hjá Sigurði að Sjálfstæðisflokkurinn, hinn gamli, stóð með réttarríkinu. Hann hafði oft og iðulega dómsmálaráðuneytið á sinni könnu og studdi dyggilega við lögregluna og málefni hennar í þágu borgaranna. Flokkurinn hafði mjög trygga ímynd í þessum málum. Fólk treysti honum eins og það gerði í málefnum dómstólanna.

Nú er kominn til sögunnar Sjálfstæðisflokkurinn hinn nýi. Sá flokkur hefur allt aðrar áherslur en sá gamli. Breytingin hófst í formannstíð Þorsteins Pálssonar. Það var þegar hann gerði dómsmálaráðuneytið að skúffuráðuneyti í sjávarútvegsráðuneytinu. Þá hófst hnignun lögreglu og dómsmála í landinu almennt. Þá hófst fjársvelti í þessum málaflokki. Það fólst í sósíalískum fimm ára áætlunum. Málaflokknum er skammtaður peningur án tillits til raunverulegrar þarfar. Stofnanir eiga að halda sig innan ramma fjárlaga.

Á tímabili voru fyrirmæli sjávarútvegsráðuneytisins til dómsmálaráðuneytisins að lög­reglu­embættum bæri að meta í gegnum síma hvort atvik væri það alvarlegt að lögregla ætti að mæta á staðinn! Ástæðan var sparnaður í yfirvinnu. Á þessu tímabili byrjaði ofbeldið í miðbænum. Og ráðuneyti dómsmála fyrirskipaði undanhald lögreglu úr miðbænum í nafni sparnaðar. Eftir að Björn Bjarnason tekur við ráðuneytinu hafa margir hlutir breyst til batnaðar. Sem betur fer. En Björn stendur höllum fæti innan Sjálfstæðisflokksins, hinum nýja.

Og hugsaðu þér, ágæti Sigurður, hvað verður um réttarríkið þegar ofsatrúarhópurinn og ofstækisöflin innan Sjálfstæðisflokksins, hins nýja, sömu öfl og mótmæltu því að lögreglan efldi nýlega eftirlit sitt í miðborginni, öflin sem vilja leyfa sölu á eiturlyfjum, öflin sem skirrast ekki við að beita valdníðslu, gleypa flokkinn að fullu.

Formaður Frjálslynda flokks Kópavogs.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×