Innlent

Björgólfsfeðgar í mál við dæmdan dópsmyglara

Björgólfur Guðmundsson.
Björgólfur Guðmundsson.

Eignarhaldsfélagið Vatn og land sem er í eigu Björgólfsfeðga hefur höfðað mál á hendur Ársæli Snorrasyni. Ársæll var í október á síðasta ári dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl í BMW málinu svokallaða. Björgólfsfeðgar hafa nú stefnt Ársæli fyrir dóm vegna vangoldinnar húsaleigu en hann býr í húsi við Laugaveg sem er í eigu félagsins.

Fyrirtaka verður í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur 28. mars næstkomandi. Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfsfeðga sagði í samtali við Vísi að málið snúist um vangoldna húsaleigu. Ársæll var með leigusamning við Vatn og land þegar félagið komst í eigu þeirra. Hann hafi lítið gert af því að borga leiguna og erfitt hafi verið að ná sambandi við hann. Því hafi þeim verið nauðugur einn kostur að fara með málið fyrir dóm.

Ársæll var eins og áður segir dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir aðild sína að BMW málinu en í því voru 15 kíló af amfetamíni og 10 kílo af hassi flutt til landsins í bensíntanki BMW bifreiðar. Áður hafði hann hlotið dóm í Hollandi fyrir fíkniefnasmygl. Hann bíður nú afplánunar eftir því sem Vísir kemst næst.

Nú styttist hins vegar í það að húsið sem Ársæll býr í verði rifið því það er á reitnum þar sem Samson hefur áform um að reisa húsnæði Listaháskóla Íslands. Ásgeir segir að nú standi yfir samkeppni á meðal arkitekta um hönnun hússins og að henni lokinni verði að öllum líkindum ráðist í framkvæmdir sem fyrst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×