Erlent

Hrói Höttur endurfæðist í Grikklandi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Netið

Hrói Höttur er genginn í endurnýjun lífdaganna í Norður-Grikklandi þar sem grímuklæddir hugsjónamenn mótmæla hækkandi verðlagi á róttækan hátt.

Stórmarkaðir í grísku borginni Þessaloníku hafa með reglulegu millibili orðið fyrir barðinu á allsérkennilegum ræningjum. Þar eru á ferðinni um 20 manna hópar, oftast grímuklæddir, sem ryðjast inn í markaðina um hábjartan dag og ræna þar matvælum með miklum bægslagangi. Ræningjarnir fara svo með feng sinn út á götu og dreifa honum þar meðal almennings.

Þarna eru á ferð anarkistar, eða stjórnleysingjar, sem vilja með athæfi sínu mótmæla þeim miklu verðhækkunum sem dunið hafa á grískum almenningi upp á síðkastið en verðbólga í Grikklandi mælist nú 4,9 prósent - eitthvað sem fæstir Íslendingar tækju eftir en er engu að síður mesta verðbólga sem Grikkir hafa upplifað í áratug.

Verslunareigendur hafa tekið háttseminni með jafnaðargeði og benda á að enginn hafi meiðst og aldrei hafi peningum verið rænt. Fyrir kemur að hóparnir ráðast til atlögu ógrímuklæddir og kemur það þá flestum í opna skjöldu að ræningjarnir eru konur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×